„Hægt að pakka þessari bylgju saman“

Ragnar Freyr Ingvarsson læknir.
Ragnar Freyr Ingvarsson læknir.

Sautján læknar hafa boðið fram krafta sína í bakvarðasveit vegna kórónaveirufaraldursins. Tveir störfuðu í fyrri bylgju en nú hafa fimmtán aðrir boðið starfskrafta sína til baráttunnar sem er fram undan. „Fólki rennur blóðið til skyldunnar og þetta eru gamlir reynsluboltar sem vilja hjálpa til,“ segir Ragnar Freyr Ingvarsson, umsjónarlæknir COVID-göngudeildar á Landspítala. „Fólk kemur af fúsum og frjálsum vilja að hjálpa til. Manni er gríðarlega mikið þakklæti í huga. Það er á þessum tímum sem fólk sýnir sínar bestu hliðar, þegar fólk rís upp,“ segir Ragnar Freyr. 

Rauð flögg út um allt

Hann kallar eftir því að hinn almenni borgari taki einnig þátt. Fjöldi smita utan sóttkvíar veki ugg sem vert er að gefa gaum að. „Það eru rauð flögg út um allt. Í fyrstu bylgjunni snerum við bökum saman og pökkuðum saman þessari bylgju. Það er varla til sá staður í heiminum þar sem bylgjan fór hraðar niður en hún fór upp. Kúrfan var eins og Hallgrímskirkja. Við handbremsubeygðum þennan faraldur niður síðast. Það er hægt að pakka þessari bylgju saman ef við hjálpumst að,“ segir Ragnar Freyr.   

Hann segist geta ímyndað sér að fólk sé orðið þreytt en bendir á að fólk sem upplifði heimsstyrjaldirnar hafi líklega einnig verið pirrað. „Við búum við stríðsástand án blóðsúthellinga. Það er þá sem við þurfum að sýna lit,“ segir Ragnar. 

Að sögn Ragnars var búið að gera handbók um viðbragsáætlun eftir fyrstu bylgjuna. „Þegar faraldurinn fór af stað á ný. Þá var farið í það að ræsa út lækna og hjúkrunarfræðinga. Við bjuggum til handbók eftir síðasta faraldur þannig að ef og þegar þetta gerðist aftur þá væri viðbragsáætlun tilbúin,“ segir Ragnar. 

Meiri gaumur gefinn að meltingartruflunum 

Ragnar er hluti af níu manna stýrihópi sem er í viðbragsteymi gegn faraldrinum. Hlutverk hans er bæði að þjálfa fólk í læknisfræðilegum atriðum og að samræma aðgerðir lækna um allt land. Hann segir að vegna betri þekkingar á sjúkdómnum nú sé önnur meðferð notuð til þess að takast á við hann en í fyrstu bylgju. Nú er eingöngu notast við veirulyf. Eru það  Favipiravir í fyrstu en þeir sem leggjast inn fá Remdesivir og Dexamethasone. 

„Við vitum núna hver alvarlegu einkennin eru og við erum búnir að gera rannsóknir sem eru í ritrýningu þar sem við höfum farið betur yfir það hvaða þættir það eru sem hafa betra forspárgildu um veikindin,“ segir Ragnar. Í því samhengi segir hann að meira sé horft til meltingartruflana á borð við uppköst og niðurgang. 

Nóg af öndunarvélum eftir gjafir fyrirtækja 

Hann segir að stærsti lærdómurinn af sjúkdómnum hingað til sé sá að það taki langan tíma að jafna sig. „Það sem hefur orðið fólki til aldurtila erlendis er þegar fólk hefur rofið öndunarvélameðferð á degi fjögur eða degi sjö. Fyrsti sjúklingurinn sem ég tók við var sextán daga í öndunarvél og hann hefur það fínt í dag. Í fyrstu bylgjunni lærðum við mikilvægi þess að styðja við sjúklinginn allan tímann,“ segir Ragnar. 

Hann segir feikinóg af svæfingar- og öndunarvélum á Landspítalanum. Ekki síst fyrir tilstilli fyrirtækja sem gáfu tugi öndunarvéla um og eftir fyrstu bylgjuna. „Við eigum góðan forða af lyfjum og tækjum,“ segir Ragnar. 

17 læknar hafa boðið fram krafta sína gegn veirufaraldrinum.
17 læknar hafa boðið fram krafta sína gegn veirufaraldrinum. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert