„Þetta var svakalegur hávaði“

„Ég sá þetta bara gerast,“ segir Birgir H. Arason, bóndi á Gullbrekku 2 í Eyjafjarðarsveit, þar sem stór aurskriða féll skammt frá fyrir hádegi í dag. Hann segir í samtali við mbl.is að viðlíka skriða hafi ekki fallið í 14 ár, eða frá því fyrir jólin 2006 þegar mikil skriðuföll urðu við Grænuhlíð í Eyjafjarðarsveit. 

Eins og greint var frá fyrr í dag féll stór aur­skriða úr Hleiðargarðsfjalli ofan við bæ­inn Gilsá 2 í Eyjaf­irði rétt fyrir ellefu í morgun. Eng­an sakaði en skriðan staðnæmd­ist um 100 metr­um frá hús­inu.

„Ég er hérna á næsta bæ innan við Gilsá,“ segir Birgir þegar mbl.is hafði samband. Aðspurður kveðst hann hafa heyrt mikinn hávaða í fyrstu.

Mikill hávaði fylgdi þegar skriðan, sem er nokkur hundruð metrar …
Mikill hávaði fylgdi þegar skriðan, sem er nokkur hundruð metrar að lengd, féll í morgun. Ljósmynd/Lögreglan

Hvorki bíll né flugvél

„Ég var að vinna uppi í fjósi hjá mér og ég heyri bara einhverjar djöfulsins drunur; ég hélt að það væri að koma einhver bíll hérna heim að hlaði og fór út til að athuga það. Það var nú enginn bílinn og þá datt mér í hug að þetta væri flugvél að koma, því þær fljúga nú hérna yfir þegar þær koma úr Reykjavík. En svo var þetta bara svo svakalegur hávaði og þá sá ég upp í hlíðina að það var þessi svaðalega aurskriða sem kom þarna niður.“

Birgir segir að skriðan hafi stoppað á bæjarhól við Gilsá 2, þar sem gamall torfbær eitt sinn stóð. Spurður út í veðrið segir Birgir að úrkoman hafi ekki verið neitt svakalega mikil og almennt hafi veðrið verið nokkuð milt og gott fyrir norðan. 

Enginn var þarna á ferð

Undanfarna daga hafi þó einstaka steinar rúllað niður hlíðina og einstaka vatnsspýjur en ekkert í líkingu við þessa skriðu. Sem betur fer hafi þó enginn verið þarna á ferðinni, hvorki menn né skepnur. 

Lögreglan á Norðurlandi eystra er á staðnum og von á sérfræðingi frá Veðurstofu Íslands til að meta aðstæður. Ekki er útilokað að fleiri skriður geti fallið, að því er lögreglan greindi frá í tilkynningu í dag. 

Þegar Birgir er spurður hvort hann hafi séð annað eins á sínum heimaslóðum bendir hann á að miklar skriður hafi fallið rétt fyrir jólin 2006. En hinn 20. desember það ár féllu allmargar aurskriður við bæinn Grænuhlíð í Eyjafjarðarsveit. Féllu skriður á íbúðarhús og gripahús. Tvö útihús gjöreyðilögðust og skemmdir urðu einnig á íbúðarhúsinu.

mbl.is