SSSK gera Eflingu tilboð

Sara Dögg Svanhildardóttir, formaður SSSK.
Sara Dögg Svanhildardóttir, formaður SSSK.

Sam­tök sjálf­stæðra skóla (SSSK) lögðu fram drög að kjarasamningi við Eflingu í dag sem víkur að einhverju leyti frá samningi Eflingar við Reykjavíkurborg. Hingað til hafa svokallaðir tilvísunarsamningar verið gerðir í samninginn við Reykjavíkurborg en Efling telur að starfsfólks sjálfstætt starfandi skóla hafi verið kjarasamningslaust um árabil. Aftur verður fundað í deilunni á morgun.

Sara Dögg Svanhildardóttir, formaður SSSK, segir að samningnum svipi þó mjög til þess kjarasamnings sem Reykjavíkurborg hefur gert við Eflingu. Hún segir að forsendur sérsamnings geti aldrei byggt á öðru en forsendum sveitarfélags þar sem skóli starfar.

„Rekstrarfé til leikskóla grundvallast af þeim kostnaði sem sveitarfélagið reiknar fyrir rekstur sinna skóla. Það er algjört grundvallaratriði til að geta samið við stéttarfélag eins og Eflingu að það sé viðurkennt og það verði aldrei hægt að víkja frá þeim forsendum sem sveitarfélagið gefur,“ segir Sara.

Háðir framlögum sveitarfélaga

Spurð hvort einhverjar breytingar verði á þeirri tilhögun að miða við samninginn við Reykjavíkurborg segir Sara:

„Efling hefur hingað til óskað eftir því að við tækjum upp Reykjavíkurborgarsamninginn eins og hann kemur fyrir. Það höfum við ekki getað samþykkt þar sem það eru ýmis ákvæði í samningi við sveitarfélag sem eiga ekki við á hinum almenna markaði. Það liggur í hlutarins eðli að það séu ákveðin atriði sem varða stjórnsýslulög sem eiga ekki við.“

Hún bætir því við að þó sjálfstætt starfandi leikskólar séu ekki opinberar stofnanir séu þeir rekstrarlega algjörlega háðir framlögum sveitarfélaga.

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, vildi ekki tjá sig efnislega um tillögur SSSK en sagði þó að Efling hefði verið í sambandi við skóla- og frístundasvið borgarinnar vegna deilunnar.  

„Við munum eftir því sem heimilt er halda áfram því samtali,“ sagði Viðar. 

Sami ramminn

Spurð hvort einhverjar kjaraskerðingar sé að finna í tillögum SSSK segist Sara telja að svo sé ekki. 

„Það eru bara ákveðnar greinar í þessum samningsdrögum sem eru orðaðar öðruvísi. Að öðru leyti er þetta sami ramminn, launakjör eru nákvæmlega þau sömu.“

SSSK hafa átt einn fund með embættismönnum borgarinnar vegna deilunnar. Þar segir Sara að SSSK hafi falast eftir upplýsingum um það hvernig sveitarfélagið muni útfæra samninginn. Spurð hvort fjármagn sé tryggt með þeim tillögum sem SSSK hafa lagt fram segir Sara einfaldlega að forsenda SSSK sé sú að ávallt sé samið við opinberu skólana á undan þeim einkareknu svo SSSK geri sér grein fyrir því á hvaða framlögum sé hægt að byggja samninginn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert