Starfsmenn Rio Tinto í verkfall

Starfsmenn álversins samþykktu verkfall.
Starfsmenn álversins samþykktu verkfall. mbl.is/Ómar Óskarsson

Starfsmenn álversins í Straumsvík hafa samþykkt að beita verkfallsaðgerðum sem hefjast 16. október. Ákveðnar starfsstéttir fara í dagleg verkföll út nóvember en ef ekki tekst að semja fyrir lok þess mánaðar hefst allsherjarverkfall, að því er Reinhold Richter, trúnaðarmaður starfsfólks álversins, staðfestir í samtali við mbl.is.

Varð þetta niðurstaðan eftir atkvæðagreiðslu starfsmanna um verkfall sem lauk á hádegi í dag, þar sem 81,25% starfsmanna samþykktu verkfallsaðgerðir. Starfsfólk Rio Tinto fer fram á sambærilegar launahækkanir og fram hafa komið í lífskjarasamningi, sem nemur 73 þúsund krónum.

„Þrátt fyrir ástandið í þjóðfélaginu varð þetta niðurstaðan. Fólk er langþreytt á því að fá ekki sama kaup og aðrir fá með tilkomu lífskjarasamingsins,“ segir Reynhold. Meðal þeirra sem fara í verkfall eru iðnaðarmenn og verkamenn í kerskála, vélvirkjar, bifvélavirkjar og rafvirkjar.

„Það er ekki markmiðið að fara í verkfall heldur að semja. Ég vona að það verði hægt að setjast niður og ræða málin,“ segir hann. Deilan var þegar komin á borð ríkissáttasemjara en að loknum fimm fundum sem ekki báru árangur var ákveðið að grípa til aðgerðanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert