SUS gagnrýnir frumvarp um fæðingarorlof

Telur SUS að brýnt sé að endurskoða frumvarp félags- og …
Telur SUS að brýnt sé að endurskoða frumvarp félags- og barnamálaráðherra um fæðingarorlof. Stjórnina leiða Halla Sigrún Mathiesen, formaður og Páll Magnús Pálsson, varaformaður. Ljósmynd/Aðsend

Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna (SUS) gagnrýnir frumvarp Ásmundar Einars Daðasonar félags- og barnamálaráðherra um fæðingarorlof og telur það skerða ákvörðunarrétt foreldra til þess að ráðstafa fæðingarorlofi, hvað varðar skiptingu og tímabil töku orlofsins.

Fagnar SUS lengingu orlofsins í tólf mánuði en telur að skiptingin ætti að vera í anda þeirrar skiptingar sem verið hefur við lýði hingað til, sem með lengingu orlofsins yrðu fjórir mánuðir á hvort foreldri auk fjögurra mánaða sem foreldrum er frjálst að framselja sín á milli (4-4-4) eða þrír mánuðir á mann auk sex til framsals (3-3-6).

Gerir frumvarp barna- og félagsmálaráðherra ráð fyrir því að hvort foreldri taki sex mánuði í fæðingarorlof, með heimild til þess að framselja þar af einn mánuð til annars hvors foreldris.

[...] „Teljum við að frumvarpið, sem tekur að er virðist eingöngu mið af jöfnum rétti foreldra, takist ekki ætlunarverk sitt og stuðli í raun að annars konar ójöfnuði, svosem tekjutapi fjölskyldna og/eða skertu fjárhagslegu sjálfstæði í þeim tilvikum sem foreldri þarf að dreifa orlofsgreiðslum yfir fleiri mánuði en gert er ráð fyrir,“ segir í tilkynningu SUS.

Brýnt að gefa forræðishyggjunni frí

Telur stjórn SUS brýnt að forræðishyggjunni verði gefið frí og breytingar verði gerðar á frumvarpinu:

„Þó sjálfstæður réttur foreldra til töku fæðingarorlofs sé mikilvægur, er valfrelsi foreldra það líka,“ segir í niðurlagi tilkynningarinnar.

Borist hafa á þriðja hundrað umsagna á vef Samráðsgáttar en frestur til þess að skila inn umsögn rann út í dag.

Tilkynning SUS:

Í nýlegu frumvarpi félags- og barnamálaráðherra er meðal annars lagt til að fæðingarorlof sé lengt úr 10 mánuðum í 12 mánuði og að tímabil töku orlofs sé stytt úr 24 mánuðum í 18 mánuði. Einnig er það lagt til að í stað fjögurra mánaða á hvert foreldri og tveggja til að deila, verði ný skipting sex mánuðir á hvert foreldri, þar af einn framseljanlegur milli foreldra.

Samband ungra sjálfstæðismanna fagnar því að lengja eigi fæðingarorlof í 12 mánuði. Hinsvegar erum við ósammála því að takmarka eigi valfrelsi foreldra til að ráðstafa fæðingarorlofinu, bæði hvað varðar skiptingu þess og tímabil töku orlofsins. Réttur til töku fæðingarorlofs er réttur sem ætti fyrst og fremst að miða að hagsmunum barna. Því teljum við að frumvarpið, sem tekur að er virðist eingöngu mið af jöfnum rétti foreldra, takist ekki ætlunarverk sitt og stuðli í raun að annars konar ójöfnuði, svosem tekjutapi fjölskyldna og/eða skertu fjárhagslegu sjálfstæði í þeim tilvikum sem foreldri þarf að dreifa orlofsgreiðslum yfir fleiri mánuði en gert er ráð fyrir. Stytting tímabilsins til töku orlofs er einnig úr takti við raunveruleika leikskólamála, þá sérstaklega í Reykjavíkurborg, þar sem börn komast iðulega ekki inn á leikskóla 18 mánaða gömul. Við teljum það ekki heillavænlegt að ganga á réttindi ungabarns til umönnunar eingöngu út frá jafnréttissjónarmiðum, en tillögur félags- og barnamálaráðherra bitna fyrst og fremst á börnunum sjálfum og ákvörðunarrétti fjölskyldna til að gera það sem er barninu fyrir bestu.

Við teljum brýnt að breytingar verði gerðar á frumvarpinu, hagsmunir barna verði settir í forgrunn og forræðishyggjunni gefið frí. Þó sjálfstæður réttur foreldra til töku fæðingarorlofs sé mikilvægur, er valfrelsi foreldra það líka. Eigi skipting fæðingarorlofs að vera skilyrt, þá ætti sú skipting að taka mið af báðum sjónarmiðum og vera í anda þeirrar skiptingar sem hefur verið við lýði hingað til, 3-3-6 eða 4-4-4.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert