Einhver getur dáið og þá lokum við heiminum

Brynjar Níelsson og biðskyldan. Hann telur hugsanlegt að verið sé …
Brynjar Níelsson og biðskyldan. Hann telur hugsanlegt að verið sé að fórna meiri hagsmunum fyrir minni með þeim sóttvarnaráðstöfunum sem nú eru í gildi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að ríkisstjórnin hljóti að velta því upp á hverjum degi hvort ástæða sé til þess að fara rólegar í sakirnar í sóttvarnaaðgerðum sem hafa lamandi áhrif á allt samfélagið, með tilliti til þess að sá samfélagslegi skaði sem þær valdi kunni að vera meiri en augljós heilsufarslegur skaði af völdum farsóttarinnar sjálfrar.

Þingmaðurinn telur að aðkoma einkaaðila í heilbrigðisþjónustu gæti verið meiri í faraldrinum og jafnframt að gera þurfi heildrænt hagsmunamat á afleiðingum sóttvarnaráðstafana á Íslandi. Hann spyr: Fer allt á hliðina jafnvel þó að við lokum ekki öllu?

Sjálfstæðisflokkur gagnrýninn á sóttvarnaaðgerðir

Því hefur verið haldið fram að óeining ríki innan ríkisstjórnarinnar um sóttvarnaaðgerðir, í það minnsta hafi svo verið þar til staðan versnaði til muna nú fyrir skemmstu. Fréttablaðið heldur því fram á forsíðu í dag að dómsmálaráðherra, ferðamálaráðherra og utanríkisráðherra hafi haft efasemdir um nýlegar sóttvarnaráðstafanir. Þá hefur Sigríður Andersen þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi dómsmálaráðherra ekki legið á skoðunum sínum um að henni þyki stjórnvöld ganga of hart fram með aðgerðum sínum.

Brynjar segir í samtali við mbl.is að hann skilji þessi sjónarmið. „Við erum auðvitað bara að velta fyrir okkur hvort ekki eigi að skoða myndina meira í heild sinni. Við stöndum frammi fyrir því að þessi veira er hérna. Það var sagt við okkur í vor að hún væri ekkert að fara og að við þyrftum því bara að hafa hemil á henni þannig að heilbrigðiskerfið ráði við hana. Síðan er allt í einu komin upp sú staða að það þurfi bara að eyða henni. 

Ég bara er að velta fyrir mér, hvort rétt sé að gera það, með hliðsjón af þeim miklu afleiðingum sem aðgerðirnar hafa? Hvar liggja mörkin fyrir því? Er þessi veira svo skæð að við getum réttlætt þetta bara með því að einhver geti dáið?“ spyr Brynjar.

Einkaaðilar stígi inn í 

Brynjar segir að þekking á veirunni sé meiri nú en í vor og að meðal annars sé vitað að færri veikist alvarlega en talið var. Þó sé skiljanlegt að þeir embættismenn sem staðið hafa í framlínunni leggi megináherslu á sóttvarnir frekar en stóru myndina, enda er það frumskylda þeirra sem lækna að hlúa að heilsu fólks. 

„Það er ekki bara Landspítalinn sem getur séð um sjúklinga. Það sem ég er að segja er að heilbrigðiskerfið í heild sinni getur ráðið við fleiri.“

Einkaaðilar líka, þá? 

„Að sjálfsögðu. Það er meira að segja til minnisblað á Landspítalanum um það, sem aldrei hefur komið fram. Menn þurfa auðvitað bara að virkja það og gera betur úr því. Við vorum með tugi ef ekki á annað hundrað öndunarvéla hér í vor. Hvað ætla menn að gera við það?“ spyr Brynjar. 

„Er þessi Covid-veira það skæð að við grípum til svona róttækra aðgerða eða eigum við að segja: Því miður verður það þannig að eitthvað af fólki fer illa út úr þessu. Vandinn er að þú verður alltaf vondi maðurinn þegar þú vekur máls á þessu og menn spyrja mig hvort ég vilji að þeir drepist. En málið er bara að það eru fleiri undir hérna og velferð og heilsa stærri hóps,“ segir Brynjar. 

Ljósmynd/Landspítalinn

Skrýtið hvernig umræðan hafi þróast

Brynjar segir að miklir hagsmunir séu í húfi sem geti haft meiri afleiðingar en veiran sjálf. „Ég er bara að velta því upp hvort menn þurfi ekki að hafa hliðsjón af öðru og meira en því hve margir geti hugsanlega dáið af sjúkdómnum sjálfum. Ég er bara að velta þessu upp og er ekkert að segja að ég sé með einhverja endanlega lausn.“

Hann segir skrýtið hvernig umræðan hefur þróast: „Bara að einhver geti dáið og þá getum við bara lokað heiminum. Ég er bara að gagnrýna það að menn horfi bara á þetta þannig,“ segir Brynjar. 

Brynjar segir að fara þurfi í hagsmunamat á stöðunni. „Ef þetta er staðreyndin, að einhver geti dáið og að þá réttlætum við að loka öllu og að allur atvinnurekstur fari hér á hliðina, þurfum við bara að fara í hagsmunamat með það. Vegna þess að sumir segja að það hefur bara miklu meiri afleiðingar fyrir líf fólks og heilsu að missa hérna alla vinnu og svo framvegis bara af því að læknisfræðilega séð ætlum við ekki að láta fólk deyja.“

23 liggja á sjúkrahúsi vegna veirunnar þessa stundina.
23 liggja á sjúkrahúsi vegna veirunnar þessa stundina. Kristján H. Johannessen

„Fer allt á hliðina þó að við lokum ekki öllu?“

Smitum hefur fjölgað ört síðustu daga og vikur og ástandið á Landspítalanum er að sögn stjórnenda þar býsna slæmt. Brynjar telur þó að ekki sé öruggt að allt færi hér í bál og brand jafnvel þó að aðgerðir væru slakari. 

„Spurningin er sú: Fer allt á hliðina þó að við lokum ekki öllu og göngum ekki svona langt? Auðvitað get ég ekki svarað því, en miðað við hvað fáir veikjast alvarlega og hvað smitið er lítið, geta menn sagt bara: Það er allt í lagi, bara eins og venjuleg flensa að þessu leyti. Þá bara veikist fullt af fólki og svo er því bara batnað eftir viku. Heilbrigðiskerfið þyrfti ekkert að fara á hliðina fyrir því,“ segir Brynjar.  

„Ég er ekki að segja að grípa ekki til neinna aðgerða, ég er bara að segja, þurfa þær að vera svona viðamiklar? Svo grípum við hvert og eitt til eigin aðgerða. Það er voða auðvelt að sitja úti í bæ og gagnrýna þá sem þurfa að taka erfiðu ákvarðanirnar og ég er ekkert að skamma þau. En við getum ekki haldið heiminum lokuðum endalaust.“



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert