Flytja inn í nýja stúdíóíbúð fyrir 2,7 milljóna útborgun

Fjölbýlishúsin tvö sem Búseti er að byggja og verða tilbúin …
Fjölbýlishúsin tvö sem Búseti er að byggja og verða tilbúin næsta sumar. Við hliðina, hægra megin, er húsið sem Félag eldri borgara í Reykjavík, FEB, byggði í Árskógum 1 til 3. Verslunarmiðstöðin í Mjódd er fjær. Ljósmynd/Búseti

Nú standa yfir framkvæmdir í Árskógum 5 og 7 í Mjóddinni í Reykjavík þar sem Búseti reisir tvö fjögurra hæða fjölbýlishús með alls 72 íbúðum. Í húsunum eru stúdíóíbúðir sem eru aðallega hugsaðar fyrir ungt fólk, sem er að hefja búskap.

Búseti lauk nýlega framkvæmdum við Keilugranda í Reykjavík, þar sem byggðar voru 78 íbúðir, og voru þær afhentar nýjum kaupendum í sumar.

Að sögn Ágústu Guðmundsdóttur, sölu- og markaðstjóra Búseta, verða íbúðirnar í Árskógum tilbúnar til afhendingar næsta sumar. Í boði eru 32 þriggja herbergja íbúðir, 14 tveggja herbergja og 26 stúdíóíbúðir. Sala á búseturéttum er hafin og getur hver umsækjandi sótt um fleiri en eina íbúð og forgangsraðað. Mikill áhugi sé hjá félagsmönnum enda húsin í næsta nágrenni við íþróttasvæði ÍR, grunnskóla og leikskóla svo og verslunarmiðstöðina í Mjódd.

Huga að „fyrstu kaupendum“

Bjarni Þór Þórólfsson, framkvæmdastjóri Búseta, segir að í þessu verkefni endurtaki Búseti það sem hafi vakið athygli í nýlegu verkefni félagsins við Keilugranda. Hluti hinna 72 íbúða á byggingarreitnum eru svokallaðar stúdíóíbúðir, sem eru ekki síst ætlaðar þeim sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð. Búseturéttur á þeim íbúðum er frá um 5,3 milljónum króna og mánaðarlegt búsetugjald rúmlega 120 þúsund.

„Í boði er fjármögnunarleið, í samstarfi við viðskiptabanka Búseta, sem gerir fólki kleift að flytja í nýja íbúð fyrir um 2,7 milljónir króna. Þá er miðað við 50% fjármögnun búseturéttar á 5,4 milljónir króna. Verkefnið var m.a. hugsað sem hagkvæmur og aðgengilegur kostur fyrir ungt fólk til að eignast sitt fyrsta heimili á viðráðanlegu verði,“ segir Bjarni Þór.

Flestar stúdíóíbúðir eru á bilinu 42-43 fermetrar. Þriggja herbergja íbúðirnar eru flestar nálægt 95 fermetrum að stærð. Verð búseturéttar er um 10,5 milljónir á þeim íbúðum og mánaðarlegt búsetugjald um 225 þúsund á mánuði. Ef fólk selur eignina (búseturéttinn) fæst hann endurgreiddur uppreiknaður miðað við vísitölu neysluverðs.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »