„Gríðarleg ógn fyrir heilbrigðiskerfið“

Frá tónleikum karlasönghópsins Fósturvísanna fyrir heimilisfólk Hrafnistu í vor þegar …
Frá tónleikum karlasönghópsins Fósturvísanna fyrir heimilisfólk Hrafnistu í vor þegar kórónuveirufaraldurinn stóð sem hæst í fyrstu bylgju. Nú gengur verr að verja hjúkrunarheimilin fyrir smitum. mbl.is

Verri árangur hefur náðst nú í þriðju bylgju kórónuveirufaraldursins við að varna veirunni vegar inn á hjúkrunarheimili landsins, að sögn forstjóra Hrafnistu, Maríu Fjólu Harðardóttur. Þetta stafar meðal annars af því sem þegar hefur komið fram í umræðunni, að smitrakning gengur einfaldlega verr fyrir sig nú en síðast.

María Fjóla Harðardóttir forstjóri Hrafnistu og stjórnarmaður í Samtökum fyrirtækja …
María Fjóla Harðardóttir forstjóri Hrafnistu og stjórnarmaður í Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu. Ljósmynd/Aðsend

Þegar hafa greinst smit á þremur hjúkrunarheimilum á höfuðborgarsvæðinu, fimm á hjúkrunarheimilinu Eir í Grafarvogi, þrjú á Hrafnistu Ísafold í Garðabæ og nú síðast eitt í dagdvöl á Hrafnistu á Sléttuvegi í gær. Lýsandi fyrir erfiðleika við smitrakningu er sú staðreynd að uppruni þriggja smita á Ísafold hefur ekki enn fundist.

Í síðustu bylgju sluppu hjúkrunarheimili í Reykjavík nánast alfarið við smit, að undanskildu einu smiti á Eir. Verr úti urðu Vestfirðir. Á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík létust tveir úr veirunni og fleiri smituðust. Á Hlíf á Ísafirði smitaðist síðan einn í ágúst en þar greindust aðrir lausir við veiruna. 

Fólk lést úr vanrækslu

María, sem jafnframt er stjórnarmaður í Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu, hefur þungar áhyggjur af þróuninni. „Við erum að horfa á smitin koma inn á hjúkrunarheimilin og spurningin er hver verður næstur? Það er stór hópur sem er að smitast sem er ekki í sóttkví, þannig að við erum að keppa við ákveðinn draug. Þetta er eins og keppni í heppni,“ segir María.

Hún bendir á að smit á hjúkrunarheimilum hafi víðtækari afleiðingar en aðeins alvarlega heilsuógn fyrir sjúklinginn. „Þetta er gríðarleg ógn fyrir heilbrigðiskerfið, sem stafar af því að ef smit kemur upp á hjúkrunarheimili, fer á milli íbúa og síðan starfsfólks, þá í fyrsta lagi verður fólk mjög veikt og þarf sumt að fara á sjúkrahús. Þau sem þurfa það ekki þurfa samt umönnun og ef starfsfólk okkar veikist líka, þá verður mjög erfitt að sinna henni,“ segir María.

Mikið af þeim dauðsföllum sem hafi orðið erlendis segir María að hafi ekki endilega verið beint af völdum veirunnar einnar, heldur enn frekar af völdum vanrækslu. „Það var enginn eftir til að sinna þeim. Ef við lendum í þeirri stöðu að bæði íbúar og starfsfólk okkar er smitað, eigum við þá að loka hjúkrunarheimilunum og senda alla á sjúkrahús, líka þá sem eru ósmitaðir, af því að það er ekki til fólk til að annast þá? Það er ógnin við heilbrigðiskerfið,“ segir María. 

Fráflæðisvandinn er þegar orðinn nokkur á Landspítala.
Fráflæðisvandinn er þegar orðinn nokkur á Landspítala. Ljósmynd/Landspítalinn

Skoða sérstakt COVID-hjúkrunarheimili

Þar sem smit hafa komið upp á hjúkrunarheimilum hafa sums staðar verið hannaðir sérstakir COVID-gangar, þar sem fólk í einangrun dvelst meðan á henni stendur. María segir að þessi lausn sé ekki tæk til lengri tíma. 

„Þess vegna er heilbrigðisráðuneytið að skoða núna hvort ekki sé hægt að opna sérstaka deild, sérstakt hjúkrunarheimili, þar sem þeir geta dvalist sem eru í einangrun. Þannig er hægt að halda heimilunum sjálfum eins hreinum af COVID og hægt er,“ segir María. 

Samráð stendur yfir um þessa lausn og SFV hafa óskað eftir formlegum fundi um að koma svona stofnun á fót tímabundið. Í fyrstu bylgju var laust nýtt hjúkrunarheimili þegar faraldurinn braust út en það var ekki nýtt undir þetta fyrirkomulag, heldur aðeins til að létta á fráflæðisvanda hjá Landspítalanum, þ.e. að taka við sjúklingum sem höfðu verið þar. Nú er frekar litið til þess að á þetta sérstaka COVID-hjúkrunarheimili fari sjúklingar sem eru veikir, þurfi einangrun og aðhlynningu, en eru ekki svo veikir að þeir þurfi til dæmis gjörgæslumeðferð.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert