Óttast vanefndir á niðurgreiddri sálfræðiþjónustu

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að ríkisstjórnin hafi sýnt vilja sinn skýrt í verki þegar 540 milljónum var ráðstafað til geðheilbrigðismála með fjáraukalögum ársins 2020. Gert er ráð fyrir jafnháu framlagi í fjárlagafrumvarpi næsta árs, en því til viðbótar segir Bjarni að verulegur hluti fjárheimilda ársins 2020 sé enn ónýttur enda hafi frumvarp um greiðsluþáttöku ríkisins í sálfræðiþjónustu ekki verið samþykkt fyrr en á miðju ári, í lok júní.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, spurði ráðherra út í málið í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Sagði hún að þinginu hafi tekist hið ómögulega í júní þegar frumvarpið var samþykkt, en að fjárlög og fjármálaáætlun næstu ára væru ekki í samræmi við vilja þingsins.

Ástæða væri til að hafa áhyggjur af líðan fólks í miðjum heimsfaraldri. „Við upplifum aukna einangrun, einmanaleika, ofbeldi, óvissu og ótta um heilsufar, afkomu okkar nánustu. Allt hefur þetta áhrif á sálarlíf þjóðar. Við það bætast svo efnahagslegar áhyggjur og atvinnuleysi sem ristir mjög djúpt,“ sagði Þorgerður.

„Ef hæstvirtur ráðherra tengir bara við efnahagslegu hliðina get ég sagt honum að greiðari aðgangur að sálfræðiþjónustu og stuðningur við hana, hvar sem er í samfélaginu, er eitt af þeim framsýnu málum þar sem tekið er utan um líðan þjóðarinnar á þessum tímum. Og það er þjóðhagslega hagkvæmt,“ sagði Þorgerður.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Heilbrigðisráðherra hafi svigrúm

Bjarni blés á gagnrýni um vanefndir, en sagðist ekki vita hvað hann ætti að segja eftir þessa „ætluðu kennslustund í efnahagsmálum og stjórnmálum“.

Benti hann á að í upphafsári fjármálaáætlunar, þ.e. 2021, væri gert ráð fyrir 61 milljarði króna til heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa. Sú upphæð hækkaði í 68 milljarða króna árið 2025 á lokaári fjármálaáætlunar. Unnið væri með rammafjárlög en fagráðherrar hefðu síðan svigrúm til að ráðstafa til ólíkra málaflokka innan þess.

„Ég sé ekki betur en að með þeirri gríðarlegu aukningu sem hefur orðið til geðheilbrigðismála og verður til heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa á komandi árum sé fullnægjandi svigrúm til þess að gera ráð fyrir samningum við sálfræðinga, svo dæmi sé tekið,“ sagði Bjarni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert