Einn í haldi vegna húsbrota

Farið hefur verið inn í þó nokkurn fjölda húsa á …
Farið hefur verið inn í þó nokkurn fjölda húsa á Siglufirði undanfarna daga og þar stolið verðmætum. mbl.is/Gúna

Einn er í haldi lögreglunnar á Norðurlandi eystra grunaður um aðild að fjölda húsbrota á Siglufirði undanfarnar nætur. Bergur Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn við rannsóknardeild lögreglustjóraembættisins á Norðurlandi eystra, segir að maðurinn verði yfirheyrður síðar í dag en ekki er vitað á þessu stigi hvort hann hafi átt aðild að húsbrotunum.

Tilkynnt var til lögreglu um að brotist hafi verið inn í grunnskólann á Siglufirði í nótt og stolið lyfjum. Það mál er í rannsókn lögreglu sem og bifreiðaþjófnaður. Ekki er vitað hvort þessi tvö mál tengist fjölmörgum húsbrotum í bænum undanfarna sólarhringa en það er til rannsóknar hjá lögreglu að sögn Bergs. 

Lögreglustöðin á Siglufirði.
Lögreglustöðin á Siglufirði. mbl.is/Gúna

Farið hefur verið inn í nokkurn fjölda húsa á Siglufirði undanfarna daga og verðmætum stolið. Þar sem húsin voru í öllum tilvikum ólæst er ekki um innbrot að ræða heldur húsbrot.

Líkt og fram hefur komið á mbl.is komu húsráðendur að þjófnum á tveimur stöðum þar sem hann var kominn inn. Hann náði að koma sér út úr húsunum og í burtu.Maðurinn var sagður dökkklæddur, með dökka hettu sem huldi andlit að mestu. 

Bergur segir að lögreglan vilji hvetja fólk til þess að læsa húsum sínum og geyma ekki verðmæti fyrir allra augum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert