Hefur dreift sér stjórnlaust

Röð í skimun vegna COVID-19 við Suður­lands­braut 34
Röð í skimun vegna COVID-19 við Suður­lands­braut 34 mbl.is/Kristinn Magnússon

Smitstuðullinn utan sóttkvíar á Íslandi er hár núna eða um þrír og það bendir til að veiran hafi náð að dreifa sér stjórnlaust og því var tímabært að grípa til aðgerða.

Miðað við stöðuna núna má gera ráð fyrir að nokkur fjöldi hafi smitast síðustu daga og muni greinast á næstu dögum. Árangur aðgerða verður ekki sýnilegur fyrr en eftir eina til tvær vikur segir í nýju spálíkani sem birt er á vefnum covid.is.

Vísindafólk frá Háskóla Íslands, embætti landlæknis og Landspítala hafa unnið að gerð spálíkans um líklega þróun Covid-19-faraldursins á Íslandi að beiðni sóttvarnalæknis. 

Spáin um þróun fyrstu bylgju varð stöðug um fjórum vikum frá upphafi faraldurs. Segja má að um 1. apríl hafi smitstuðullinn verið að nálgast einn. Eftir það fylgdi bylgjan kúrfu. Hliðstætt gerðist í bylgju 2. Um miðjan ágúst var smitstuðullinn kominn að einum, með fráviki í kringum hópsmit 20. ágúst og hélst rúmlega einn inn í miðjan september. Smitstuðullinn hefði samt þurft að fara undir einn til að ná faraldrinum alveg niður eins og í fyrstu bylgju. Því miður gerðist það ekki segir í rýni hópsins um þróun smitstuðulsins ásamt þróun greindra Covid-19-smita hér á landi.

Smitstuðull COVID-19 faraldursins á Íslandi þegar tillit er tekið til …
Smitstuðull COVID-19 faraldursins á Íslandi þegar tillit er tekið til hlutfalls einstaklinga sem greinist í sóttkví. Neðri mynd: Fjöldi daglegra greindra smita ásamt sjö daga hlaupandi meðaltali. covid.hi.is/

Smitstuðullinn segir til um hvað einstaklingur sem sýkist mun að jafnaði smita marga aðra. Þegar smitstuðullinn utan sóttkvíar er þrír mun hver og einn að jafnaði sýkja þrjá aðra, sem sýkja þrjá aðra. Ef heildarsmitstuðullinn er hins vegar nægilega lágur (vel undir einum) mun hver og einn að jafnaði smita færri en einn annan og faraldurinn því deyja út. 

„Meðalsmitstuðull alls tímabilsins fyrir einstaklinga í sóttkví er metinn 0,6 (95% líkindabil: 0,3-0,8), sem bendir til þess að sóttkví sé mjög öflug sóttvarnaaðgerð. 

Með auknum umsvifum í þjóðfélaginu í september náði veiran sér svo á flug með stóru hópsmiti á höfuðborgarsvæðinu í kringum 15. september og við sem samfélag höfum ekki enn náð stjórn á faraldrinum. Nú er smitstuðullinn kominn á þann stað sem skilar sér í veldisvísisvexti ef faraldurinn fær að geisa án þeirra mótvægisaðgerða sem nú eru komnar til framkvæmda,“ segir ennfremur.

Myndræn framsetning á áhrifum smitstuðulsins á þróun faraldursins.
Myndræn framsetning á áhrifum smitstuðulsins á þróun faraldursins. Inglesby (2020).
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert