Mælt með grímum í Réttarholtsskóla

Jón Pétur Zimsen, aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla.
Jón Pétur Zimsen, aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla. mbl.is/Hari

Stjórnendur Réttarholtsskóla sendu foreldrum barna í skólanum bréf í gær þar sem mælt er með því að þau komi með grímur í skólann. Ekki er um kvöð að ræða heldur tilmæli segir Jón Pétur Zimsen aðstoðarskólastjóri. 

Að sögn Jóns Péturs hefur undanfarnar tvær vikur verið loftræst vel í skólanum, gluggar opnir upp á gátt og eins svalahurðir yfir daginn. Með því að beina tilmælum til nemenda um að vera með grímur samfara góðri loftræstingu sé dregið verulega úr líkum á smiti í skólanum en ekkert smit er meðal nemenda skólans svo vitað sé. 

Réttarholtsskóli er unglingaskóli og eru nemendur rúmlega 400 talsins og starfsmenn yfir 50. Jón Pétur segir að þar sem húsnæði skólans er fremur þröngt sé erfitt að hólfaskipta starfseminni þrátt fyrir að það sé reynt eftir fremsta megni. Eins sótthreinsa kennarar alla snertifleti í skólastofum á milli kennslustunda.

Starfsfólk, þar á meðal kennarar, notar orðið grímur við störf í skólanum og stjórnendur skólans vilji gera sitt til að tryggja það að hægt verði að halda uppi óbreyttu skólastarfi. Til þess þurfi að sýna varúð og notkun gríma er ein leið til þess. 

Jón Pétur segir að í bréfi sem sent var til foreldra í gær hafi þeir verið beðnir um að ræða þessi mál við börn sín og hvetja þau til að koma með grímur í skólann. Þeir sem ekki eiga grímur geti fengið þær hjá starfsfólki skólans. 

Réttarholtsskóli starfar á unglingastigi.
Réttarholtsskóli starfar á unglingastigi. mbl.is/Árni Sæberg

Horft er til ráðlegginga Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) um að 12 ára og eldri eigi að meðhöndla eins og fullorðna en nemendur skólans eru fæddir 2005-2007. Samkvæmt WHO er lagt til að börn 12 ára og eldri noti grímur við sömu aðstæður og fullorðnir. Ekki síst þar sem ekki er hægt að tryggja fjarlægðarmörk. 

„Þetta er áhrifarík leið til að draga úr smithættu og minnka líkur á að skólasamfélagið verði útsett fyrir smiti. Við förum yfir rétta grímunotkun með nemendum og við treystum þeim til að vinna þetta eins vel og þeir geta.

Með þessu raskast skólastarfið lítið en ávinningurinn gæti orðið mjög mikill. Miðað við þann hraða sem vírusinn breiðist út þá teljum við að það sé frekar hvenær en hvort smit greinist í skólasamfélaginu okkar. Þá er betra að hafa verið með sem allra flestar varnir uppi,“ segir í bréfi til foreldra barna í Réttarholtsskóla.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert