Miklu meira álag en í fyrstu bylgju

Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður sóttvarnahúsanna tveggja, tekur á móti þeim …
Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður sóttvarnahúsanna tveggja, tekur á móti þeim sem geta ekki verið í sóttkví eða einangrun heima við. mbl.is/Ásdís

Á venjulegum degi fær Gylfi Þór Þor­steins­son, um­sjón­ar­maður sótt­varna­hús­anna tveggja við Rauðar­ár­stíg, 100 símtöl, flest frá rakningarteyminu, Covid-deild Landspítala og Neyðarlínunni. Hann segir álagið nú miklu meira en í fyrstu bylgju faraldursins en tekið sé á móti öllum sem raunverulega þurfi á plássi að halda.

Alls dvöldu 50 manns í sóttvarnahúsi við Rauðarárstíg í fyrstu bylgju faraldursins en nú hafa 539 dvalið þar.

Álagið er að aukast og mun eflaust halda áfram að aukast næstu daga,“ segir Gylfi í samtali við mbl.is. 

Er álagið meira nú en í fyrstu og annarri bylgju faraldursins? 

„Þetta er miklu meira. Í fyrst bylgju vorum við með 50 gesti hér samtals, núna í dag eru búnir að fara í gegnum húsin hjá okkur 539. Í húsum núna erum við með 88 einstaklinga, þar af eru 56 í einangrun.“

Sóttkví eins og einangrun

Fólk sem er í sóttkví í húsunum tveimur getur ekki farið út úr herbergjum sínum. 

„Í raun er það þannig að þeir sem er hér í sóttkví eru hér vegna þess að þeir af einhverjum ástæðum geta ekki verið heima hjá sér eða eru heimilislausir. Í raun er þeirra sóttkví hér innan dyra meðhöndluð eins og einangrun. Fólk þarf að halda sig inni á herbergjum sínum þar til seinni sýnataka hefur farið fram og þá losna fólk héðan út. Fólk sem er hér í sóttkví er aldrei lengur en 5-7 daga hjá okkur,“ segir Gylfi. 

Um hvað snúast símtölin 100?  

„Fólk sem þarf að komast í húsið. Það er metið hverju sinni hvort einstaklingur þurfi raunverulega að koma hingað inn því þetta er mikið inngrip. Það eru oft nokkur símtöl út af einum einstakling. Síðan eru náttúrulega alls konar fyrirspurnir, Covid-bíllinn hringir í okkur þegar hann er að koma og fara. 100 símtöl er bara venjulegur dagur.“

Hafið þið tök á að taka á móti öllum?  

„Við getum tekið á móti öllum sem raunverulega þurfa á því að halda en stundum getum við ekki tekið við öllum strax og þá þurfum við aðeins að hagræða hjá okkur. Við erum með tvö hús núna og um helgina mun losna töluvert af plássum hjá okkur sem við náum að rótera þannig að við erum á þægilegum stað eins og er. Það er ekkert að springa hjá okkur enn þá,“ segir Gylfi sem þarf að kveðja til að taka á móti nýjum gesti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert