Mistök í brjóstaskoðun líka til skoðunar

Sævar Þór Jónsson lögmaður.
Sævar Þór Jónsson lögmaður. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögmaður nokkurra kvenna sem fengu ranga niðurstöðu úr leghálsskimun frá Krabbameinsfélagi Íslands hefur einnig fengið inn á borð til sín mál sem varðar möguleg mistök í brjóstaskoðun hjá félaginu. Hann hyggst vísa 10 málum sem snúa að Krabbameinsfélaginu til embættis landlæknis að óbreyttu. 

Lögmaðurinn, Sævar Þór Jónsson, hefur fengið fleiri mál sem varða Krabbameinsfélagið inn á borð til sín á síðustu dögum. Flest málanna sem um ræðir eru vegna mistaka í leghálsskimun. Eitt þeirra er þó frábrugðið og snýr að mistökum við brjóstaskoðun. Sævar getur ekki tjáð sig frekar um það mál að svo stöddu. 

„Það er til skoðunar. Það sem kannski vekur athygli mína er að það virðast vera brotalamir á ýmsum sviðum þarna innan dyra sem snúa að starfsemi Krabbameinsfélagsins en ég get ekkert fullyrt um það. Það eru einfaldlega fleiri mál sem eru til skoðunar er varða brjóstaskoðun.“

Verður farið í skaðabótamál í öllum tilvikum? 

„Í einhverjum þessara mála verður klárlega farið í skaðabótamál. Það er búið að tilkynna það en það er ekki ljóst í öllum tilvikum.“

Krabbameinsfélagið ekki orðið við beiðni vegna álags

Er Krabbameinsfélagið búið að vera samstarfsfúst? 

„Ég get ekki fullyrt um það. Við höfum verið að beina samskiptum okkar til landlæknisembættisins. Við höfum líka verið að kalla eftir gögnum frá Krabbameinsfélaginu og félagið hefur sagst ekki geta orðið við beiðni okkar vegna álags. Við erum að reka á eftir því. Við höfum líka verið í samskiptum við tryggingafélag Krabbameinsfélagsins vegna málsins,“ segir Sævar.

Á þessu stigi getur Sævar ekki staðfest hvort Krabbameinsfélagið hafi viðurkennt mistök í fleiri málum en einu. Eins og áður hefur komið fram viðurkenndi Krabbameinsfélagið mistök í máli konu sem fékk ranga niðurstöðu úr leghálsskimun og glímir við ólæknandi krabbamein.

Samkvæmt upplýsingum frá embætti landlæknis hafa fjögur mál borist til embættisins vegna Krabbameinsfélags Íslands. Þau verða öll tekin til skoðunar. Ekki liggur enn fyrir hvaða sérfræðingar verða fengnir að utan til að sinna þessu verkefni, en það fer vonandi að skýrast.

mbl.is