Vilji skerða réttindi 25-falt

Sólveig Anna Jónsdóttir er formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir er formaður Eflingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Efling segir Samtök sjálfstætt starfandi skóla (SSSK) krefjast skerðingar á réttindum kvenna í fæðingarorlofi og afnáms uppsagnarverndar. Þá vilji SSSK skerða veikindarétt starfsfólks úr 360 í 14 daga. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eflingu sem hefur átt í kjaraviðræðum við SSSK um hálfs árs skeið.

„Kjaraviðræður Eflingar við Samtök sjálfstætt starfandi skóla (SSSK) hafa leitt í ljós að einkareknir skólar á höfuðborgarsvæðinu, sem starfa fyrir almannafé, hyggja á víðtæk félagsleg undirboð gagnvart starfsfólki sínu“, segir í tilkynningu Eflingar.  

„Á samningafundi í fyrradag, 7. október, kröfðust SSSK kjaraskerðinga í mörgum liðum, þar á meðal að afnema núverandi uppsagnarvernd, skerða réttindi í fæðingarorlofi og stytta veikindarétt, í sumum tilfellum 25-falt.“

„Óþolandi rangfærslur

Í tæp 20 ár hafa kjör umræddra starfsmanna tekið mið af starfskjörum starfsfólks Reykjavíkurborgar í sömu störfum. Ef fallist yrði á kröfur SSSK yrðu kjörin mun verri en borgarstarfsmanna, samkvæmt Eflingu. Yfirgnæfandi meirihluti starfsfólksins sem um ræðir eru konur á lægstu launatöxtum. 

Formaður SSSK fullyrti í viðtali við mbl.is á miðvikudag að engar kjaraskerðingar væru í tillögunum.

„Þar er um óþolandi rangfærslur að ræða sem Efling sér sig knúna til að leiðrétta. Í meðfylgjandi minnisblaði er farið yfir viðbrögð samninganefndar Eflingar á samningafundi í gær 8.10.2020,“ segir í tilkynningu. Minnisblaðið má nálgast hér neðst í fréttinni. 

„Af 22 skólum sem í hlut eiga starfa 20 samkvæmt þjónustusamningi við Reykjavíkurborg þar sem ríkar kröfur eru gerðar til starfseminnar. Greidd eru framlög til skólanna úr sjóðum Reykjavíkurborgar sem miðast við rekstrarkostnað leikskóla borgarinnar, en einkareknir skólar hafa heimild til að afla sér viðbótartekna með gjaldtöku.“

Sólveig segir ráðist á kjör kvenna

Efling vísaði deilunni til ríkissáttasemjara í maí. Nálægt 300 félagsmenn Eflingar starfa hjá aðildarfyrirtækjum SSSK.

„Borgin hefur undirritað sögulegan kjarasamning við Eflingu þar sem mikilvægi hefðbundinna kvennastarfa var viðurkennt. Nú ætla einkareknir leikskólar, sem eru á framfæri borgarinnar, að ráðast á kjör sömu kvenna með félagslegum undirboðum. Þeir ætla meðal annars að afnema réttindi þeirra í fæðingarorlofi. Ég hef orðið vitni að ýmsu í kjaraviðræðum með félagsmönnum Eflingar en þetta er með því ótrúlegra. Ég velti því fyrir mér hvort Reykjavíkurborg ætli að taka þátt í þessari aðför,“ er haft eftir Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar, í tilkynningu.  

Efling mun boða til upplýsinga- og samráðsfundar með félagsmönnum sem starfa hjá SSSK strax eftir helgi þar sem næstu skref verða ákveðin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert