Ákveðið að taka kynfræðslu út

Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sérstökum starfshópi á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins hefur verið falið að ráðast í úttekt á stöðu kynfræðslu í skólum landsins og gera tillögur að úrbótum í kjölfarið.

Lilja Dögg Alfeðsdóttir ráðherra ákvað að skipa hópinn eftir nýlegan fund við tvo aðgerðasinna sem hafa gert sig gildandi á sviði kynferðismála á undanförnum misserum. 

Sólborg Guðbrandsdóttir og Sigríður Dögg Arnardóttir á Instagram-fundi.
Sólborg Guðbrandsdóttir og Sigríður Dögg Arnardóttir á Instagram-fundi. Skjáskot/Fávitar

Það eru þær Sigríður Dögg Arnardóttur kynfræðingur, oft kölluð Sigga Dögg, og Sólborg Guðbrandsdóttir fyrirlesari og samfélagsmiðlamógúll, sem heldur úti instagramsíðunni Fávitar, þar sem skorin er upp herör gegn kynferðisofbeldi. Þeirri síðu fylgja tæp þrjátíu þúsund manns. 

Sigríður og Sólborg deildu hart á ástandið í kynfræðslumálum á fundi sem þær héldu í beinni útsendingu á umræddum instagramreikningi Sólborgar í síðustu viku.

Þar ræddu þær um allt frá upprætingu fordóma gegn endaþarmsmökum og til kynhneigðar fólks sem rófs frekar en einhvers svarts og hvíts. Þá efuðust þær um ágæti þeirrar kennsluaðferðar, sem er að þeirra sögn útbreidd, að börn séu látin keppa um það hver er fljótastur að setja smokk á banana.

Halda áfram opinskárri umræðu um kynferðislegt ofbeldi

Í kjölfar fundarins funduðu þær með ráðherra. Lilja skrifar í pistli í Morgunblaðinu í dag að flestir séu sammála um að gera þurfi betur í kynfræðslumálum í skólum landsins, enda þótt fagið hafi verið hluti af aðalnámskrá um hríð. 

Í þeim efnum sé í fyrsta lagi brýnast að almennar forvarnir stuðli að sterkri sjálfsmynd og þekkingu á mörkum og markaleysi í samskiptum kynjanna. Í öðru lagi skal auka fræðslu um kynheilbrigði og kynhegðun, einkum í grunnskólum og framhaldsskólum, og að lokum þarf að sögn Lilju að halda áfram opinskárri umfjöllun um eðli og birtingarmyndir kynferðislegs ofbeldis og áreitni. 

Það þurfi að undirbúa starfsfólk sem starfar með börnum og ungmennum til að sjá um forvarnir, fræðslu og viðbrögð við kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi. Nefndur starfshópur á að meta hvort fræðslan sé í takt við ofangreind sjónarmið, sem einnig komu fram í þingsályktun á liðnu vori. 

„Komi í ljós að fræðslan sé óviðunandi mun ég leggja mitt af mörkum svo menntakerfið sinni þessari skyldu. Í mínum huga er þetta eitt mikilvægasta baráttumálið til að auka velferð ungmenna á Íslandi,“ skrifar Lilja.

Á instagramsíðu Sólborgar má glöggva sig á ýmsu, til að mynda lesa um mótlætið sem af einhverjum sökum mætir þeim sem ferðast um skóla í því skyni að fræða nemendur um endaþarmsmök:

View this post on Instagram

Í fyrra flutti ég 3 fyrirlestra fyrir unglingastig grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu. Ég var bókuð aftur í sama skóla núna í október. Í gær var ég svo afbókuð af því foreldrafélaginu þótti það óboðlegt að ég hafi í fyrra svarað nafnlausri spurningu unglinganna um endaþarmsmök og ekki kallað það ofbeldi. Endaþarmsmök eru ekki ofbeldi og ef þið viljið bóka mig inn í skólana til að ljúga að unglingunum ykkar, þá megið þið sleppa því að hafa samband við mig. Það skiptir ekki máli hvernig kynlíf við erum að tala um, endaþarmsmök, munnmök, samfarir eða annað - ef það er ekki samþykki til staðar þá er það OFBELDI en ekki kynlíf, sem ég útskýri vel á erindunum mínum. Þó ykkur persónulega líki ekki við endaþarmsmök, þá er fullt af fólki sem stundar það, vegna þess að þeim finnst það hreinlega gott eða eru forvitin og langar til að prófa. Það skiptir hins vegar miklu máli, ef þið ætlið að stunda það, að þið farið varlega, notið verjur eins og smokk til að vernda ykkur gegn mögulegum kynsjúkdómum og ýmsum bakteríum, og mikið, mikið af sleipiefni. Það er hins vegar ENGIN SKYLDA að stunda endaþarmsmök (eða annað kynlíf) ef ykkur langar ekki til þess - sem er annað sem ég fer vel yfir á hverjum einasta fyrirlestri. Þú átt þinn líkama, þú ræður. Ekki ég. Ég ætla ekki að mæta á fyrirlestra og segja: „Mér finnst að þið ættuð að stunda svona kynlíf” vegna þess að ÉG STJÓRNA EKKI KYNLÍFI ANNARRA. Ég get hins vegar reynt að leiðbeina forvitnu, ungu fólki, þegar það spyr mig að fyrra bragði, hvernig það getur gert þetta sem öruggast og best. Ég ætla ekki að saka unglinga um að vera að beita hvert annað ofbeldi með endaþarmsmökum þegar þau eru að koma vel fram við hvert annað og allir til í að gera það sama. Það eru misvísandi og skaðleg skilaboð. Við skulum reyna að gera þetta vel. Fræðum um SAMÞYKKI, ólík mörk fólks, fjölbreytileika, verjur, kynsjúkdóma og samskipti, svo að ungt fólk þekki tækin og tólin til að gera þetta vel, ef það vill gera þetta. Hættum að hræða að óþörfu. Elsku foreldrar, skólastjórnendur og aðrir sem bóka mig á fyrirlestra, ég ætla ekki að taka þátt í því að ljúga að unglingunum ykkar. Ef það er markmiðið ykkar þá verðið þið bara sjá um það sjálf.

A post shared by Fávitar (@favitar) on Oct 9, 2020 at 5:18am PDT

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert