Eldgos gæti haft gífurleg áhrif á efnahaginn

Mynd frá Grímsvötnum.
Mynd frá Grímsvötnum. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Eldgos í Grímsvötnum gæti haft virkilega slæmar afleiðingar fyrir fluggeirann, sem og efnahag landa beggja vegna Atlantshafs, sem er nú þegar í viðkvæmri stöðu. Slíkt gos gæti orðið til þess að allar flugferðir yfir Atlantshafið legðust af um tíma og má fluggeirinn ekki við því, að því er fram kemur í frétt flugtímaritsins Simple flying. 

„Fluggeirinn er nú þegar í mjög viðkvæmri stöðu vegna heimsfaraldurs. Þrátt fyrir að það séu mun færri sem ferðast á milli landa þá fljúga flugvélar enn með mikilvægan farm á milli landa sem skiptir sköpum fyrir efnahaginn,“ skrifar greinarhöfundur. 

Mörg flugfélög hafa orðið illa úti í atburðum ársins. Eldgos gæti leitt til niðurfellingar allra flugferða yfir Atlantshafið og það gæti haft gífurleg áhrif á efnahag þjóða beggja vegna Atlantshafs, jafnvel þótt flug væri einungis fellt niður í eina viku. 

Askan getur stefnt vélunum í mikla hættu

„Við þurfum bara að bíða og hafa auga með Grímsvötnum. Eldgos er án efa það síðasta sem við viljum að gerist árið 2020,“ skrifar greinarhöfundur. 

Eins og áður hefur verið greint frá er virkni í Grímsvötnum mikil og hafa sérfræðingar sagt líkur á að þar muni gjósa í nánustu framtíð. Gul viðvörun er nú í gildi fyrir fluggeirann vegna Grímsvatna. 

Í grein Simple flying eru atburðir ársins 2010 rifjaðir upp. Þá gaus Eyjafjallajökull og lögðust flugsamgöngur af í nánast allri Evrópu, sem og flugsamgöngur yfir Atlantshafið, í tæpa viku. Það var vegna ösku úr gosinu. Slík aska getur stefnt vélum flugvéla í verulega hættu. 

Vísir greindi frá umfjöllun Simple Flying fyrstur íslenskra miðla.

mbl.is