Keypti Kim Kardashian Lúllu?

Eyrún Eggertsdóttir hefur lagt nótt við dag til að koma …
Eyrún Eggertsdóttir hefur lagt nótt við dag til að koma Lúllu á markað um allan heim. Dúkkan sefar börn og stuðlar að betri og lengri svefni, en er nú einnig vinsæl hjá eldri börnum, börnum með kvíða eða ADHD og jafnvel eldra fólki með heilabilun. mbl.is/Ásdís

Fátt er fallegra en sofandi ungbörn, það vita þau okkar sem eignast hafa börn. Friður svífur þá yfir vötnum; börnunum líður vel og foreldrar fá kærkomið hlé frá barnauppeldi eða barnagráti. Frá alda öðli hafa foreldrar leitað leiða til þess að fá börn sín til þess að sofa betur og lengur. Eitt af því sem vísindamenn hafa uppgötvað er að nánd ungbarns við hjartslátt og andardrátt foreldris hefur góð áhrif á svefnvenjur barnsins.

En vissulega geta ekki foreldrar haft börn sín á bringunni hálfu og heilu sólarhringana. Eyrún Eggertsdóttir, eigandi og forstjóri fyrirtækisins Roro, hefur framleitt mjúka dúkku sem spilar hljóð sem sefa lítil börn. Dúkkan Lúlla selst vel víða um heim og Eyrún hefur ekki undan að taka við þakkarbréfum frá foreldrum sem hafa himin höndum tekið eftir að barn þeirra fékk eina Lúllu og fór að sofa betur.

Hjartsláttur og andardráttur

Eyrún segir blaðamanni frá upphafinu á ævintýrinu.

„Ég lærði sálfræði í Háskóla Íslands og hafði áður tekið fornám í Myndlistarskólanum. Svo ákvað ég að skrá mig í Hugmyndahús háskólanna árið 2010 með þessa hugmynd að Lúllu og í kjölfarið tók ég þátt í nýsköpunarkeppninni Gullegginu. Lúlla vann Gulleggið árið 2011. Nú eru liðin tíu ár og ég hef verið í þessu síðan,“ segir Eyrún.

Þegar hugmyndin kviknaði var Eyrún nýbúin að eignast sitt annað barn en í dag eru börn hennar og Þorsteins Otta Jónssonar orðin þrjú, þriggja, tíu og þrettán ára.

„Ég var í fæðingarorlofi með þennan tíu ára þegar þessi hugmynd kviknaði fyrst. Á þessum tíma voru margar vinkonur mínar með lítil börn og allar að fást við sömu vandamálin; hvernig best væri að leggja börn frá sér á kvöldin, hvernig börnin svæfu á nóttinni, hvernig væri best að svæfa þau. Svo gerðist það að ein vinkonan mín eignaðist barn fyrir tímann og þurfti barnið að liggja inni á vökudeild, sem var mikið sjokk fyrir hana. Hún þurfti að skilja hana eftir þar á nóttinni og ég var þá sjálf með ungbarn og upplifði svo sterkt hvað það hlyti að vera erfitt að fara frá barni sínu. Og það sem gerðist þegar hún fór frá henni varð að barnið fór að taka hlé frá öndun á nóttunni.

Fyrirburar eru þá ekki búnir að læra taktinn alveg eða muna stundum ekki eftir að anda. Þá mundi ég eftir áhugaverðum rannsóknum sem ég hafði lesið um í þroskasálfræði um það hvað gerist þegar börn heyra í hjartslætti og andardrætti foreldris. Ef börn liggja á bringu móður þá stilla þau sig inn á hennar hjartslátt og fylgja honum og þá kemur ekki hlé á öndun. Þessi aðferð er notuð á mörgum spítölum.

En svo eru börnin ein á nóttunni eða jafnvel mega ekki koma úr kassanum, eins og gildir um þessi minnstu. Þá fór ég að hugsa hvort það væri ekki eitthvað sem gæti líkt eftir nærveru foreldris og þessum hljóðum, sem barnið gæti haft hjá sér alltaf. Ég leitaði mikið því mig langaði að hjálpa vinkonu minni, en svo sá ég að það var ekkert til sem væri einmitt svona,“ segir Eyrún.

„Það sem ég vildi gera var að hjálpa ungbörnum að sofa lengur og ná þessu jafnvægi. Ég vildi hafa þetta einfalt og reyna í raun að herma eftir móður náttúru,“ segir Eyrún og bendir á að vansvefta börnum líður illa sem veldur því að foreldrar verða líka vansvefta og oft endar það í vítahring.

Amma saumaði fyrstu Lúllu

Eyrún segist strax hafa fengið þá hugmynd að hanna dúkku. Upphaflega hafi hún verið hugsuð fyrir fyrirbura og nýbura en nú eru eldri börn einnig að njóta góðs af Lúllu. Hvert smáatriði dúkkunnar er vandlega úthugsað. En dúkkan varð ekki til á einni nóttu.

Lúlla var upphaflega hugsuð fyrir fyrirbura og nýbura og lætur …
Lúlla var upphaflega hugsuð fyrir fyrirbura og nýbura og lætur hún þau sofa betur og lengur. Ljósmynd/Aðsend

„Amma mín saumaði fyrstu dúkkurnar og tvær aðrar konur sem ég þekki. Þessi þróunarvinna tók þrjú ár. Ég var í samtali við spítalann, við heilbrigðisverkfræðing og við enduðum svo í Stúdíó Sýrlandi að taka upp hljóðin. Þar var kveikt á kertum og ég fékk vinkonu mína sem er jógakennari og fjögurra barna móðir til að anda fyrir okkur inn á band.“

Eyrún þurfti að fjármagna verkefnið og fékk í byrjun styrk frá Tækniþróunarsjóði Íslands fyrir vöruþróun og seinna markaðssetningu. Á síðari stigum komu inn tvö íslensk fjárfestingafélög og einnig fór fyrsta framleiðsla Lúllu í hópfjármögnun.

„Við ákváðum að selja verðandi foreldrum þúsund dúkkur á einum mánuði árið 2014 á Indiegogo, og það tók níu mánuði að koma þeim til skila, sem er mjög táknrænt. Með hópfjármögnuninni gátum við sett fyrstu fimm þúsund dúkkurnar í framleiðslu,“ segir hún en fyrirtækið er nú með samning við tvær verksmiðjur í Kína. 

Miklu meira en leikfang

Lúlla er vandlega úthugsuð; efnið, litirnir, fötin og innvolsið. Lúlla er til í þremur húðlitum og eru þær allar með ólíkan háralit.

 „Það er ástæða fyrir öllu í útliti hennar. Hún er öll mjúk og létt, tækið er innan í og hægt að taka það úr svo hægt sé að þvo hana á sextíu gráðum. Ég fór upp á vökudeild og talaði við starfsfólkið um hana áður en ég hannaði hana. Þau könnuðumst alveg við rannsóknir sem studdu mínar kenningar og sögðu að hún ætti að virka. Svo var mikilvægt að hægt væri að þvo hana á sextíu gráðum sem er nóg til að drepa allar bakteríur. Lúlla er miklu meira en leikfang,“ segir Eyrún og útskýrir hljóðin sem heyrast.

„Hún spilar þessa raunverulega upptöku af hjartslætti og jóga-andardrætti sem kallast haföndun. Hljóðið fer aldrei yfir 65 desibil til að það sé alveg öruggt. Hún getur spilað í tólf tíma samfleytt,“ segir hún.

„Dúkkan var þróuð fyrir fyrirbura en eftir að hún var framleidd og komin í sölu hefur það breyst og erum við aðallega að horfa á frá fæðingu og upp í tveggja, þriggja ára. En við erum núna að horfa einnig til eldri barna, og þá eru það oft börn sem eru með kvíða eða þurfa aðstoð við að sofa betur. Þetta eru börn sem þurfa huggun.

Lúlla getur hjálpað börnum með ADHD til að róa sig, og hjálpar einnig einhverfum börnum sem eiga erfitt með snertingu við fólk. Svo er einn hópurinn sem hefur bæst við og það er hópur eldri borgara með alzheimer eða heilabilun. Við höfum verið að gefa Lúllu á elliheimili og höfum fengið jákvæð viðbrögð frá aðstandendum. Þetta skiptir máli, ekki síst núna þegar gamla fólkið er einmana og einangrað í Covid.“

Best fyrir börnin

Nýlega vann Lúlla fern mikilsvirt barnavöruverðlaun sem skipta miklu máli fyrir markaðssetningu.

Dúkkan Lúlla hefur hlotið fern eftirsótt leikfangaverðlaun.
Dúkkan Lúlla hefur hlotið fern eftirsótt leikfangaverðlaun. Ljósmynd/Aðsend

„Við sóttum um nokkur verðlaun og Lúlla fékk öll verðlaunin. Þetta eru bresk og bandarísk verðlaun og eru sum þeirra valin af dómnefnd en uppáhaldsverðlaunin mín eru þau sem kosin voru af foreldrum. Þessi verðlaun eru veitt fyrir vörur fyrir börn og svo eru alls konar flokkar, en við sóttum um í þeim flokkum sem okkur fannst passa fyrir Lúllu.

Hún vann gull í flokknum „best sleep aid“ eða besta svefnhjálpartækið, og „best baby comforter“. Það var einmitt það sem við vonuðumst eftir. Það er ótrúlegt að finna að öðrum en okkur finnst Lúlla frábær,“ segir Eyrún og nefnir að nú þegar hafi selst 160.000 dúkkur um allan heim. Í netsölu hefur Lúlla selst til yfir sjötíu landa, en dreifingaraðilar eru í Ástralíu, Nýja-Sjálandi, Kína, Singapúr, Suður-Afríku og víða um Evrópu.

Seldist á uppsprengdu verði

Við sláum botninn í samtalið með einni skemmtilegri sögu. Þannig var mál með vexti að á einum tímapunkti hafði fyrirtækið ekki undan að framleiða því eftirspurnin var svo mikil.

 „Á meðan skipið var á leiðinni seldust allar þrjátíu þúsund dúkkurnar upp. Þá voru þær að ganga kaupum og sölum á Ebay og einhver borgaði 680 dollara fyrir eina dúkku! Það komst í heimspressuna og hoppaði á milli fréttamiðla. Í kjölfarið var fjallað um Lúllu í The Today Show í Bandaríkjunum. Ég segi að Kim Kardashian hafi keypt hana; hún var að eignast barn á þessum tíma. Ég ætla að standa við það!“

Eldri börn kunna líka að meta Lúllu og nú eru …
Eldri börn kunna líka að meta Lúllu og nú eru til kósí gallar á hana. Ljósmynd/Aðsend

Ítarlegt viðtal er við Eyrúnu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 



Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert