Óafsakanlegt að hafa farið í golf

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, spilaði golf síðdegis í dag á golfvellinum í Hveragerði, þrátt fyrir tilmæli Golfsambands Íslands um að kylfingar á höfuðborgarsvæðinu leituðu ekki til golfvalla utan þess til þess að fara í golf. Þorgerður situr sjálf í stjórn sambandsins.

„Þetta er náttúrlega algerlega óafsakanlegt í ljósi tilmæla. Ég er alltaf í sveitinni en það afsakar ekki það að hafa farið í golf,“ segir Þorgerður í samtali við mbl.is.

„Ég ætla ekki neitt að fela mig á bak við það þó að ég sé hér þegar ég er ekki í Hafnarfirði. Ég fór í golf og er ekki meðlimur í klúbbnum, þannig að þá er það ekki heimilt, eins og maður segir, samkvæmt tilmælum, ef maður á að fara nákvæmlega eftir þeim.“

Á facebooksíðu Golfklúbbs Hveragerðis var í gær tilkynnt lokun vallarins fyrir öðrum en félagsmönnum frá hádegi 9. október. Þorgerður er ekki félagsmaður.

Fór ekki sérstaklega úr Hafnarfirði til að spila golf

Þorgerður hefur dvalið í húsi sínu í Ölfusi frá því í gær. Hún áréttar að tilmæli sem golfsambandið sendi frá sér kváðu á um að fólk leitaði ekki sérstaklega frá höfuðborgarsvæðinu og á golfvelli utan þess, en tiltók ekki að fólk sem væri þegar utan höfuðborgarsvæðisins ætti ekki að fara í golf.

„Það var ekki verið að banna fólki að fara í golf ef þú ert þegar úti á landi. Síðan má alveg segja hvort þetta sé rétt eða rangt. Ég get ekkert verið að afsaka það hér. Ég bara er alltaf hér en fólk getur auðvitað litið á það öðruvísi. Það hefði verið heppilegra að fara ekki en tilmælin eru þau að þú farir ekki sérstaklega út á land til að spila golf,“ segir Þorgerður.

Í því felist að sé Reykvíkingur staddur í Borgarfirðinum sé ekkert sem banni honum að spila golf. „Ég fór ekki sérstaklega úr Hafnarfirðinum til að spila golf í Hveragerði. Ég var í Ölfusinu,“ segir Þorgerður.

Golfvöllurinn hefur verið lokaður öðrum en félagsmönnum frá því í …
Golfvöllurinn hefur verið lokaður öðrum en félagsmönnum frá því í hádeginu í gær. Ljósmynd/Golfklúbbur Hveragerðis

Leiti ekki til golfvalla utan höfuðborgarsvæðisins

Í pósti frá Golfsambandi Íslands sem sendur var aðildarfélögum þegar sóttvarnaaðgerðir voru hertar á höfuðborgarsvæðinu sagði: 

„Viðbragðshópur Golfsambands Íslands beinir því hér mér til allra golfklúbba á höfuðborgarsvæðinu að loka golfvöllum sínum fram til 19. október, eða þar til ný fyrirmæli berast frá yfirvöldum. Nánar tiltekið er um að ræða golfvelli í Reykjavík, Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði, Álftanesi, Seltjarnarnesi, Mosfellsbæ, Mosfellsdal og Kjalarnesi. 

Þá beinir GSÍ þeim tilmælum til kylfinga á höfuðborgarsvæðinu að virða framangreindar takmarkanir og leita þannig ekki til golfvalla utan höfuðborgarsvæðisins, enda hafa yfirvöld beint því til höfuðborgarbúa að vera ekki á ferðinni til eða frá höfuðborgarsvæðinu meira en nauðsyn krefur.“

Lokað öðrum en félagsmönnum

Á facebooksíðu Golfklúbbs Hveragerðis í gær sagði:

„Vegna aðstæðna í þjóðfélag[i]nu og tilmæla frá almannavörnum hefur sú ákvörðun verið tekin að loka Gufudalsvelli fyrir öðrum en félagsmönnum Golfklúbbs Hveragerðis frá hádegi 9. október 2020.

Það eru skýr skilaboð frá almannavörnum um lokun valla á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni. Biðjum við félaga búsetta á höfuðborgarsvæðinu að virða þetta.“

mbl.is