Væri ekki ráðherra ef ekki væri fyrir framsýnt fólk

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að ekki megi missa sjónar á upphaflegum sjónarmiðum fæðingarorlofslaganna sem sett voru árið 2000. Fæðingarorlof verði að tryggja jafna atvinnuþátttöku karla og kvenna og jafnan rétt þeirra til samvista með barni.

Drög að frumvarpi um lengingu fæðingarorlofs í tólf mánuði voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda í síðasta mánuði. Í drögunum er lagt til að hvort foreldri fái sex mánuði í sinn hlut, en þó að færa megi einn mánuð á milli foreldra.

Í gamla kerfinu, þar sem fæðingarorlof var níu mánuðir, fékk hvort foreldri hins vegar þrjá mánuði í sinn hlut en höfðu  þrjá mánuði til að ráðstafa sín á milli eftir eigin hentisemi. 

Ekki bólar mikið á andstöðu við fyrirætlanir um lengingu orlofsins, en sitt sýnist þó hverjum um þá hugmynd að eyrnamerkja orlofið með þeim hætti sem gert er í frumvarpinu og draga þar með úr frelsi foreldra til að ráðstafa því eftir eigin hentisemi. 

„Ég tel að þessi lending sem lögð er til í samráðsgáttinni geti verið góð,“ segir Katrín. Sú sýn að reyna að tryggja sem jafnasta þátttöku mæðra og feðra í orlofinu hafi skilað mestu atvinnuþátttöku kvenna í heiminum og Íslandi í fremstu röð er kemur að jafnrétti kynjanna.

Fæðingarorlof verður lengt í tólf mánuði um áramót. Skipting tímabilsins …
Fæðingarorlof verður lengt í tólf mánuði um áramót. Skipting tímabilsins milli foreldra virðist umdeildari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðstæður geti verið ólíkar

„Ég gæti mjög vel lifað með þessari tillögu,“ segir Katrín, en þó má skilja á orðum hennar að drögin gætu tekið breytingum. Frumvarpið, sem er á borði félagsmálaráðherra, hefur enda ekki enn verið lagt fram. Í stefnuræðu sinni á Alþingi fyrr í mánuðinum sagði Katrín að Alþingi myndi í vetur „glíma við hvernig staðið skuli að skiptingu þess milli foreldra“.

Spurð út í það sjónarmið að eyrnamerking orlofsins milli foreldra geti orðið til þess að mánuðum teknum í fæðingarorlof fækki, þar sem feður taka gjarnan minna fæðingarorlof en mæður, segir Katrín að hún hafi skilning á því að aðstæður fólks geti verið ólíkar. „Ég hef sjálf tekið fæðingarorlof þrisvar á ævinni og skiptingin hefur verið misjöfn mili mín og mannsins míns eftir aðstæðum í lífi okkar,“ segir hún.

„En ég get fullyrt það að ég væri ekki forsætisráðherra ef framsýnt fólk hefði ekki sett í lög fæðingarorlof sem miðar að því að jafna atvinnuþátttöku kynjanna.“ 

mbl.is