60 innanlandssmit í gær: 36 innan sóttkvíar

Ljósmynd/Landspítalinn

Alls greind­ust 60 ný kór­ónu­veiru­smit inn­an­lands í gær, þar af voru 36 í sótt­kví og 24 utan sótt­kví­ar. 25 eru nú á spít­ala vegna Covid-19, þar af 3 á gjör­gæslu. 

46 smit­anna greind­ust í ein­kenna­sýna­tök­u og 14 í sótt­kví­ar- og handa­hófs­skimun. Rúmlega 2.000 sýni voru tek­in í gær.

1.017 eru í ein­angr­un með virkt smit og 3.916 í sótt­kví. Í skimun­ar­sótt­kví eru 1.666 manns, þangað fara þeir sem koma til lands­ins.

3 smit greind­ust við landa­mær­in og er mót­efna­mæl­ing­ar beðið í öll­um til­vik­um.

Ný­gengi inn­an­lands­smita, fjöldi nýrra smita síðustu tvær vik­ur á hverja 100.000 íbúa, er 237 en ný­gengið mæld­ist 226,3 þegar töl­ur voru kynnt­ar í gær.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, sagði á Bylgjunni í morgun að tölur dagsins geti verið að þetta bendi til þess að faraldurinn sé í rénun. Hann vonast til þess, en kvaðst ekki geta fullyrt það. 

Tvöföld skimun áfram nauðsynleg

Kári sagði að Ísland væri líklega eina þjóðin sem stundaði raðgreiningu á afbrigðum veirunnar í eins miklum mæli og hér er gert. Á grundvelli hennar megi álykta að sú veira sem nú er útbreidd um samfélagið hafi komið inn í landið áður en tvöföld skimun við landamæri tók gildi 19. ágúst.

Sumir vilja að sögn Kára kljást við faraldurinn með því að hunsa hann.

„Það er hægt að rökstyðja á ýmsan máta þá leið en mér finnst hún ansi óaðlaðandi vegna þess að þú ert raunverulega með því að fórna þeim sem eiga undir högg að sækja, gömlu fólki, því sem er með undirliggjandi sjúkdóma. Ef þú ætlar að fara þá leið að reyna að hemja þessi smit er alveg nauðsynlegt á landamærum að hafa tvöfalda skimun,“ sagði Kári.

Nokkur umræða hefur verið í þriðju bylgju faraldursins um að fara ekki í eins harðar sóttvarnaaðgerðir vegna áhrifa þess á aðra þætti í samfélaginu en Kári efast um að til sé millileið. Annaðhvort hemji maður útbreiðsluna eða leyfi veirunni að flakka: „Ég held að millileiðin sem menn eru að tala um sé bara ósköp einfaldlega ekki til.“

Fyrirkomulagið um tvöfalda skimun á landamærunum virðist ekki á förum, heldur er nú miðað við að það gildi til 1. desember. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur bent á að miðað við þann fjölda sem hefur greinst með veiruna í þessum skimunum sé ljóst að þær hafi haft tilskilin áhrif. Án þeirra hefðu þau smit getað hreiðrað um sig í samfélaginu.

Áður greindi mbl.is frá því að smitin væru 75 talsins, þar sem það kom fram í máli Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar í Sprengisandi á Bylgjunni. Fréttin hefur nú verð uppfærð í samræmi við opinberar tölur.

mbl.is