Námsmenn fá ný bílastæði

Bílastæðið við stúdentagarða við Klausturstíg. Þar hafa um 60 stæði …
Bílastæðið við stúdentagarða við Klausturstíg. Þar hafa um 60 stæði verið tekin undir vinnusvæði verktaka. Ljósmynd/Aðsend

Fyrr í dag greindi mbl.is frá óánægju íbúa í stúdentagörðum við Klausturstíg í Grafarvogi vegna bílastæðaskorts á svæðinu. Skorturinn er tilkominn eftir að verktaki, sem vinnur að byggingu nýrra íbúða á svæðinu, tók undir sig hluta bílastæðisins til að athafna sig.

Í samtali við mbl.is sagði Baldur Hrafn Halldórsson íbúi á svæðinu að leysa mætti málið með því að koma upp tímabundnu malarbílastæði við Reynisvatnsveg, umferðargötuna sem liggur upp að Klausturstíg. Óhætt er að segja að Baldur hafi fengið ósk sína uppfyllta, því það er einmitt það sem stendur til að gera.

Böðvar Jónsson, framkvæmdastjóri Byggingafélags námsmanna, segir í samtali við mbl.is að leyfi hafi fengist frá borginni í byrjun mánaðar til að koma upp bráðabirgðabílastæði við Reynisvatnsveg á meðan hluti bílastæðisins er lokaður.

„Því miður fékkst ekki leyfi fyrir framkvæmdunum fyrr því það var verið að leggja háspennustreng um svæðið,“ segir Böðvar, en hann áætlar að stæðið verði komið upp eftir viku til tíu daga. Þar verði pláss fyrir 40 bíla, en stæðin sem fóru undir athafnasvæði verktakans eru um 60.

Böðvar vonast til þess að það verði til þess að íbúar hætti að leggja bílum upp við húsin og annars staðar utan skilgreindra stæða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert