Samtals 14 klukkustundum of seinn

mbl.is/Kristinn Magnússon

Samkvæmt gögnum sem Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, hefur aflað er Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sá starfandi þingmaður sem hefur mætt flestum klukkustundum of seint á nefndarfundi, eða samanlagt 13 klukkustundum og 42 mínútum. Sigríður Á. Andersen, þingkona Sjálfstæðisflokksins, er samkvæmt gögnunum stundvísust.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur gagnrýnt gagnaöflunina og sagt málið þvætting.

Gagnanna aflaði Björn með forriti sem les sjálfkrafa upp úr fundargerðum þingsins.

Á eftir Ásmundi Friðrikssyni koma tveir aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, þeir Vilhjálmur Árnason og Páll Magnússon. Skv. gögnum Björns Levís hefur sá fyrrnefndi mætt 12 klukkustundum og 43 mínútum of seint en sá síðarnefndi 12 klukkustundum og 42 mínútum of seint. Rósa Björk Brynjólfsdóttir, sem áður var í Vinstri grænum en er nú óháður þingmaður, hefur þá mætt 11 klukkustundum og 40 mínútum of seint á nefndarfundi. 

„Þetta mál er á milli 180% og 190% þvættingur

Samkvæmt gögnunum er Sigríður Á. Andersen stundvísasti starfandi þingmaðurinn en hún hefur einungis mætt sex mínútum of seint á nefndarfundi. Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins, og Inga Sæland, þingkona Flokks fólksins, eru einnig afar stundvís samkvæmt gögnunum og hefur hvort um sig einungis látið bíða eftir sér í minna en hálftíma samanlagt á nefndarfundum. 

Eins og áður segir gefur Bjarni Benediktsson lítið fyrir gögnin. Eftir að Vísir birti umfjöllun um þau skrifaði ráðherrann á Twitter:

„Björn Leví hér með einkunnakerfi sem gefur bónusstig fyrir áheyrnarfulltrúa eins og hann sjálfan (stjórnarfl. hafa enga). Þannig getur Björn reiknað sjálfan sig í 163% mætingu. Þetta mál er á milli 180% og 190% þvættingur.“mbl.is

Bloggað um fréttina