Ábending um eldsvoðann skilaði sér ekki

Starfstöðvar Neyðarlínunnar í Skógarhlíð.
Starfstöðvar Neyðarlínunnar í Skógarhlíð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ábending sem barst Neyðarlínunni, um eld í húsbíl við Torfastaði í Grafningi í Árnessýslu skömmu fyrir miðnætti á föstudagskvöld skilaði sér ekki til lögreglunnar.

Lögreglu barst svo önnur tilkynning daginn eftir, klukkan 13.30 á laugardag. Þá var bíllinn illa útleikinn og mikið brunninn. Leiddi rannsókn í ljós að líkamsleifar manns á fertugsaldri voru í bílnum.

Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, staðfestir þetta í samtali við Morgunblaðið. Hann segir að skoðað verði hvernig stendur á því að tilkynningin hafi ekki ratað á borð lögreglu.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins voru það sumarhúsaeigendur í Grafningi sem hringdu í Neyðarlínuna á föstudagskvöld, þar sem þeir þóttust sjá eld hinum megin Sogsins. Töldu þeir sig einnig sjá bremsuljós bifreiðar. Sú bifreið getur þó ekki verið húsbíllinn sem brann enda sneri framendi hans í átt að vatninu.

Starfsmaður Neyðarlínunnar hafi vísað þeim áfram á lögreglu en þar hafi síminn hringt út.

Óskar eftir ábendingum vitna

Rannsókn lögreglu á eldsvoðanum stendur yfir, en á meðan verst lögregla allra fregna af atburðarásinni. Þannig fást ekki upplýsingar um það hvenær talið er að eldurinn hafi kviknað eða hvort grunur leiki á um íkveikju.

„Það eru allir mögulegir þættir rannsakaðir, en við viljum helst ekki móta neitt um það fyrir fram,“ segir Oddur. Lögregla hafi óskað eftir ábendingum frá vitnum og einhverjir haft sam- band. Þá séu þeir sem vita meira um málið hvattir til að láta í sér heyra.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »