Alvarlegar afleiðingar ef veirunni yrði sleppt lausri

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Umræða um nauðsyn þess að grípa til harðra aðgerða vegna kórónuveirufaraldursins er góð og allar aðgerðir hafa afleiðingar að mati Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis. Hann segir þó vanta frá þeim sem gagnrýna harðar aðgerðir umræðu um hvað kynni að gerast ef við slepptum veirunni lausri.

Fram kom í máli Þórólfs á upplýsingafundi dagsins að um 1-2% þjóðarinnar hafi sýkst af Covid-19.

Ef við fengjum útbreiðslu innanlands þar sem 10 prósent af þjóðinni myndi veikjast, sem gæti gerst á nokkrum vikum, þá gætum við séð, miðað við fyrri reynslu, um 36 þúsund manns veika,“ sagði Þórólfur.

Alls þyrftu þá 1200-2300 manns að leggjast inn á sjúkrahús, 110-600 þyrftu pláss á gjörgæslu. Allt að 200 gætu látist miðað við reynsluna hér á landi hingað til. 

Þórólfur sagði því að töluvert lítið útbreiddur faraldur myndi þannig valda það miklu álagi á heilbrigðiskerfið að það myndi bitna á öðrum sjúklingum. Það yrði að taka þetta með í jöfnuna þegar hertar aðgerðir eru gagnrýndar.

Enn fremur sagði Þórólfur að ef mikið yrði slakað á aðgerðum yrði faraldurinn töluvert útbreiddari en áðurnefnd 10%. Til að mynda þyrftu 60% landsmanna að smitast til að ná margumræddu hjarðónæmi. Sóttvarnalæknir sagði að svo mörg smit á stuttum tíma myndu hafa alvarlegar afleiðingar fyrir heilbrigðiskerfið.

„Við þurfum að standa saman um allar aðgerðirnar því samstaðan er besta sóttvarnaraðgerðin,“ sagði Þórólfur.

mbl.is

Bloggað um fréttina