Réttur til lífs og heilsu trompi önnur réttindi

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir mikilvægt að átta sig á muninum á tilmælum og reglum sem stjórnvöld gefa út í sambandi við kórónuveirufaraldurinn. Réttur fólks til lífs trompi ýmis önnur réttindi. 

Sigríður Á. Andersen þingmaður Sjálfstæðisflokksins spurði Katrínu á óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag hvort að vinna væri hafin við úrbætur á sóttvarnalögum. Sigríður vísaði meðal annars í skýrslu Páls Hreinssonar sem unnin var fyrir forsætisráðuneytið. Í skýrslunni kom t.a.m. fram að fara þurfi í heildarendurskoðun á sóttvarnalögum og að sóttvarnalög hafi þvílíka ágalla sem komið hafi í ljós við beitingu heimilda að það hafi reynt á þanþol laganna. 

Í svari sínu sagðist Katrín hafa lagt til að skýrslan yrði tekin fyrir á Alþingi. 

„Þar koma fram ýmsar ábendingar, m.a. hvað varðar innleiðingu reglugerðar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, m.a. hvað varðar hugtakanotkun. Eitt dæmi er að orðið sóttkví er ekki í sóttvarnalögum, heldur er notað orðið afkvíun, sem er auðvitað ekki mjög gagnsætt. Því þarf að samræma hugtök. Einnig þarf að tryggja að ákveðin sóttvarnaúrræði, t.d. frelsisskerðing sem felst í því að vera skikkaður í sóttkví, verði borin undir dóm, svo dæmi sé tekið. Einnig er rædd gjaldtaka sem verið hefur við lýði varðandi skimun,“ sagði Katrín í svari sínu. 

„Meginniðurstaðan í greinargerðinni er hins vegar að þegar um er að ræða rétt fólks til lífs og heilsu beri stjórnvöldum ekki aðeins skylda til að bregðast við með mjög afgerandi aðgerðum heldur sé það í raun og veru frumskylda þeirra samkvæmt greinargerðinni. Og þegar við horfum á skerðingu annarra réttinda sem fylgt getur slíkum aðgerðum má segja að réttur fólks til lífs og heilsu trompi ýmis önnur réttindi. Það er stóra niðurstaðan í þessari greinargerð sem ég hef boðist til að fara ítarlega yfir í þinginu,“ sagði Katrín. 

Munur á reglum og tilmælum 

Þá sagði Sigríður að annað verði ekki lesið úr skýrslunni en að huga þurfi vel að heimildum stjórnvalda til aðgerða. 

„Öll erum við sammála um að stjórnvöldum ber skylda til að grípa til aðgerða til að vernda líf og limi landsmanna þegar á þarf að halda og það kemur auðvitað fram í þessari skýrslu. En hins vegar bendir skýrsluhöfundur sérstaklega á að þessar skyldur stjórnvalda þurfi auðvitað líka að skoða í tíma og rúmi. Og eftir því sem tíminn líður, og nú erum við á áttunda mánuði faraldursins og vísindin segja okkur ýmsar sögur um sjúkdóminn, held ég að ekki verði annað lesið úr skýrslunni en að huga þurfi vel að heimildum sóttvarnayfirvalda til aðgerða,“ sagði Sigríður. 

Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon


„Mér dettur eitt dæmi í hug sem hefur væntanlega einnig verið þingmönnum hugleikið um helgina, þ.e. tilmæli sem sóttvarnayfirvöld sendu Íþróttasambandi Íslands þvert á setta reglugerð heilbrigðisráðherra, tilmæli sem góð og gegn félög eins og Íþróttasamband Íslands og fleiri þora að sjálfsögðu ekki annað en að fara eftir. Er þetta ekki dæmi um að það þurfi einmitt að endurskoða heimildir sóttvarnalaga?“ sagði Sigríður og spurði enn fremur hvort Katrín þekkti hver sé lagagrundvöllur slíkra tilmæla sóttvarnayfirvalda til einstakra fyrirtækja, félagasamtaka eða einstaklinga. 

Katrín sagði þá að frumvarps um endurskoðun sóttvarnalaga sé að vænta í samráðsgátt Stjórnarráðsins í nóvember og að mögulega verði frumvarpinu dreift á þingi í desembermánuði. Þá sagði Katrín ljós að tilmæli og reglur séu ekki sami hluturinn. 

„Annars vegar erum við með reglugerð sem heilbrigðisráðherra gefur út en síðan eru ýmis tilmæli frá sóttvarnalækni. Það er til að mynda ekki ferðabann í landinu, en við erum eigi að síður hvött til þess að vera ekki að ferðast út fyrir höfuðborgina því að hér eru hertari aðgerðir en annars staðar á landinu. Ég held að við áttum okkur öll á því að það er ákveðinn munur á þeim reglum sem eru settar og hins vegar tilmælum, sem byggja auðvitað líka á ákveðinni ábyrgð okkar sjálfra á því hvað við gerum til að fylgja tilmælum,“ sagði Katrín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert