Skoða hvort tæknilegt svarthol hafi myndast

Tómas Gíslason, aðstoðarframkvæmdastjóri Neyðarlínunnar.
Tómas Gíslason, aðstoðarframkvæmdastjóri Neyðarlínunnar. mbl.is/Sigurður Bogi

Verið er að velta við hverjum steini til að komast að því hvers vegna ábending rataði ekki á borð lögreglunnar vegna elds sem kom upp í húsbíl við Torfastaði í Grafningi í Árnessýslu.

„Við erum ennþá að kanna af hverju lögreglan virðist ekki hafa séð þetta verkefni hjá sér. Hvort það varð eitthvað tæknilegt svarthol, þar er eitthvað sem við erum að skoða,“ segir Tómas Gíslason, aðstoðarframkvæmdastjóri Neyðarlínunnar.

Beið í 56 sekúndur í símanum

Um klukkan hálftólf á föstudagskvöld barst Neyðarlínunni ábending um eld í bíl eða húsi í landi Torfastaða í Grafningi í Árnessýslu, að því er kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni sem birtist fyrr í morgun. „Tilkynnanda var gefið samband frá Neyðarlínu til fjarskiptamiðstöðvar lögreglu en þar virðist, að hans sögn, hafa hringt út,“ segir í tilkynningunni. Að sögn Tómasar liðu 56 sekúndur frá því viðkomandi var gefið samband við lögreglu og þangað til símkerfið sýndi að hann hafi slitið símtalinu. „Það á ekki að geta verið ákvörðun símkerfisins,“ segir hann um að símtalið hafi slitnað og telur að viðkomandi hafi gefist upp á að bíða.

Daginn eftir barst lögreglunni önnur tilkynning. Þá fannst illa útleikinn og mikið brunnin húsbíll við Torfastaði. Rannsókn leiddi í ljós að líkamsleifar manns á fertugsaldri voru í bílnum.

Hringdi úr sumarbústað við Búrfell

Tómas segir sjónvarvottinn sem hringdi í Neyðarlínunna hafa hringt úr sumarbústað við Búrfell í Grímsnesi en ekki úr sumarhúsi í Grafningi, eins og heimildir Morgunblaðsins hermdu. Vegna fjarlægðarinnar var ákveðið að gefa símann á lögregluna til frekari eftirgrennslan en ekki varðstjóra Brunavarna Árnessýslu, svo dæmi sé tekið.

„Við erum að velta við hverjum steini til að átta okkur á hvort þetta var tæknilegt vandamál eða ekki,“ segir Tómas, sem útilokar ekki að Neyðarlínan hafi gert mistök. Það hafi þá verið vegna tæknilegs klúðurs.  

Lögreglan rannsakar málið.
Lögreglan rannsakar málið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Breytingar í farvatninu 

Hann bendir á að verið sé að vinna að breytingum í samvinnu við lögregluna á fyrirkomulaginu varðandi innhringingar og verður það tekið í notkun fyrir áramót. Þá mun sá sem hringir inn aðeins tala við einn aðila allan tímann og endar símtalið því ekki á því að þeim sem hringdi verður gefið samband við lögregluna. Þess í stað getur lögreglan hringt í hann í kjölfarið til að fá frekari upplýsingar. Í langflestum tilvikum mun símtalinu því ljúka eftir samtal við starfsmann Neyðarlínunnar.

Að sögn Tómasar er þessi háttur hafður á víða erlendis, þar á meðal í Finnlandi, Hollandi og einhverjum ríkjum Bandaríkjanna og hefur Neyðarlínan kynnt sér þessa starfshætti úti í Bandaríkjunum. Hingað til hefur ferlið hér á landi verið þannig að Neyðarlínan tekur niður upplýsingar fyrir skilgreind verkefni, eins og fyrir slökkviliðið og Barnavernd, en ef um lögreglumál er að ræða er síminn gefinn áfram á lögreglu. „Það er heppilegra að svara fyrir allt saman á einum stað, við teljum að dæmin hafi sannað það víða um heiminn,“ greinir hann frá og bætir við: „Við teljum að þetta hafi alltaf verið svolítill galli í okkar kerfi.“

Spurður segist Tómas ekki muna eftir samskonar dæmum nýverið og því sem gerðist í tengslum við brunann í Árnessýslu. Hann kveðst hafa rætt við ríkislögreglustjóra í dag til að komast til botns í málinu. „Við munum bera saman okkar bækur og leita skýringa,“ segir hann.

Neyðarlínan á tveimur stöðum 

Sem varúðarráðstöfun vegna Covid-19 er stjórnstöð Neyðarlínunnar núna á tveimur stöðum í stað eins. Aðalstöðin er sem fyrr í Skógarhlíð en varastöð er núna í Krókhálsi. Spurður hvort eitthvað samskiptaleysi vegna þess gæti hafa haft eitthvað að segja segir hann að það myndi koma sér á óvart ef svo væri. Starfsmaður í Skógarhlíð hafi svarað þegar ábendingin um eldinn barst en þetta sé eitt af því sem verði skoðað. 

Óska eftir fleiri vitnum

Í tilkynningunni sem barst í morgun óskar lögreglan eftir því að heyra frá fólki sem var á ferðinni í Grafningi og þar í grennd frá klukkan 22 og fram að miðnætti á föstudagskvöld.

„Tilkynnandi sá sem hringdi í Neyðarlínu talaði sérstaklega um mögulega umferð ökutækis við brunavettvanginn þegar eldurinn var hvað mestur og óskar lögreglan eftir því að fá upplýsingar frá þeim sem þar hefur mögulega verið á ferðinni.  Upplýsingum má koma til lögreglu í síma 444-2000, á facebook eða í tölvupósti á netfangið sudurland@logreglan.is,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert