Skylda nemendur til að mæta á prófstað

Borið hefur á því að stúdentum við háskóla landsins sé skylt að mæta á prófstað. Eini möguleikinn fyrir þá sem geta ekki eða treysta sér ekki til þess að mæta er að sækja um að taka sjúkrapróf seinna í haust. Þetta kemur fram í yfirlýsingu Landssamtaka íslenskra stúdenta,LÍS, varðandi um námsmat í háskólum á tímum COVID-19.

„Undanfarna daga og vikur, samhliða fjölgun COVID-19 smita, hafa stúdentar í mörgum háskólum landsins þurft að þreyta miðannar próf og lokapróf áfanga sem skiptast í lotur. Borið hefur á því að stúdentum sé skylt að mæta á prófstað, sem þeim þykir eðlilega óþægilegt í ljósi þess að yfirvöld hafa biðlað til fólks að halda sig heima. Eini möguleikinn fyrir þá sem geta ekki eða treysta sér ekki til þess að mæta er að sækja um að taka sjúkrapróf seinna í haust. Háskóli Íslands hefur fellt niður kröfu um læknisvottorð til þess að fá að taka sjúkrapróf, nóg er að láta vita í tölvupósti ef einstaklingur kemst ekki í próf vegna einangrunar eða sóttkví. En að mati LÍS er hér aðeins verið að velta vandamálinu á undan okkur. 

Það hefur verið krafa LÍS frá byrjun faraldursins að fjarnám verði í boði fyrir öll sem kjósa, en að reyna skuli að halda í staðnám á þeim námsleiðum sem erfitt er að aðlaga að fjarnámi. Krafan um að boðið sé upp á staðnám er auðvitað háð því að gætt sé að sóttvörnum eftir tilmælum sóttvarnarlæknis.

Háskólar hafa aðlagað sig að aðstæðum og breytt mörgum námsleiðum í fjarnám, og gert sóttvarnarráðstafanir til þess geta haldið staðnámi gangandi að einhverju leiti, með því að minnka hópa, gæta að fjarlægð, og skylda þá sem mæta til að vera með grímur. 

Það er eðlilegt að stúdentar meti hverju sinni eftir þeim tilmælum og upplýsingum sem berast frá yfirvöldum hvort þau treysti sér til þess að mæta í staðnám enda kunna nemendur sjálfir eða aðstandendur þeirra að vera í áhættuhóp. Þar sem að smitum fer ört vaxandi í samfélaginu undanfarna daga virðast æ fleiri kjósa að stunda nám sitt heiman frá. 

Krafa LÍS um aðgengi að fjarnámi felur í sér að hægt sé að stunda námið alfarið að heiman frá. Það er óásættanlegt að gerð sé ófrávíkjanleg krafa um að stúdentar mæti á prófstað til að taka próf. Til er fjölmargar lausnir til þess að meta námsárangur í fjarnámi. LÍS biðlar til fagsfólks háskólanna að leita annara leiða til námsmats en próf á prófsað, þannig að fjarnám verði raunverulegur kostur fyrir þá sem þess þurfa,“ segir í yfirlýsingu LÍS.

mbl.is

Bloggað um fréttina