4,5 milljarðar í hringrásarhagkerfi og fráveitumál

Alíslenskur grámávur flýgur með plast í gogginum.
Alíslenskur grámávur flýgur með plast í gogginum. mbl.is/Bogi Þór Arason

Gert er ráð fyrir 1,7 milljörðum króna í þágu hringrásarhagkerfisins í fjármálaáætlun 2021-2025 með sérstöku fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar.

Fyrir var um 100 milljóna króna árleg fjárveiting til sömu verkefna, að því er segir í tilkynningu.

Áhersla er lögð á aðgerðir sem ýta undir ábyrga framleiðslu og neyslu, að draga úr sóun, auka endurvinnslu og endurnýtingu og halda verðmætum í umferð eins lengi og hægt er. Á næsta ári fer hálfur milljarður til þessara verkefna.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfissráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfissráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Frumvarp sem skyldar sérsöfnun úrgangs

„Efling hringrásarhagkerfisins var ein af mínum megináherslum þegar ég settist í stól ráðherra og er það enn. Til þess að styðja við innleiðingu þess þarf að beita ýmsum stjórntækjum s.s. hvötum til grænnar nýsköpunar og fræðslu. Ég mun leggja fram frumvarp í vetur sem skyldar sérsöfnun úrgangs en setur líka þær skyldur á okkar herðar að hætta að urða lífrænan úrgang. Þannig drögum við úr sóun og úr losun gróðurhúsalofttegunda, en úrgangsmál eru líka mikilvæg loftslagsmál“, segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, í tilkynningunni.

2,8 milljarðar til úrbóta í fráveitumálum

Í fjármálaáætlun 2021-2025 er jafnframt gert ráð fyrir að 2,8 milljörðum verði varið til úrbóta í fráveitumálum á tímabilinu í sérstöku fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar vegna kórónuveirunnar. Þá hefur 200 milljónum króna verið varið til fráveituframkvæmda í ár en kveðið er á um átak í fráveitumálum í samstarfi ríkis og sveitarfélaga í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Átta hundruð milljónum króna verður varið í fráveituframkvæmdir á næsta ári samkvæmt fjárlagafrumvarpi 2021.

mbl.is