Ásættanleg niðurstaða á erfiðum tímum

Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness.
Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness. mbl.is/Kristinn Magnúsosn

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, segist ánægður með kjarasamning sem félagið náði við Norðurál í kvöld. 

„Ég er mjög ánægður með þetta. Við erum búin að standa í þessari kjaradeilu núna í hartnær tíu mánuði og vorum búin að boða til vinnustöðvunar 1. desember svo það var mikið áhyggjuefni að okkur tækist að landa kjarasamningi,“ segir Vilhjálmur í samtali við mbl.is. 

„Ég er mjög sáttur með niðurstöðuna. Við gerðum kröfu um það að lífskjarasamningahækkanirnar myndu ná til starfsmanna Norðuráls og það tókst ásamt öðrum atriðum eins og endurskoðun á bónuskerfi og öðru slíku,“ segir Vilhjálmur. 

Samningurinn gildir afturvirkt frá 1. janúar þessa árs svo starfsmenn fá þær kjarabætur sem samningurinn kveður á um greiddar frá því tímamarki. 

„Samningurinn gildir afturvirkt frá 1. janúar 2020 sem skiptir miklu máli enda um umtalsverða fjármuni að ræða. Starfsmenn eru að hækka um 43 þúsund upp í rúmlega 50 þúsund krónur á mánuði þannig að þetta er mjög ásættanlegt. Sem betur fer hefur okkur borið gæfa til þess í samningum við Norðurál að láta samningana gilda afturvirkt. Ég man nú reyndar ekki eftir því að við höfum þurft svona langan tíma að ganga frá kjarasamningi og núna svo það reynir meira á afturvirknina en áður,“ segir Vilhjálmur. 

Bindur vonir við að samningurinn verði samþykktur

Rúmlega 500 starfsmenn Norðuráls heyra undir samninginn. Þar af eru tæplega 400 félagsmenn í Verkalýðsfélagi Akraness. Vilhjálmur segir að samningurinn verði kynntur starfsmönnum á allra næstu dögum áður en atkvæðagreiðsla fer fram. Verður þetta gert með rafrænum hætti í ljósi kórónuveirufaraldursins. 

„Við förum núna á allra næstu dögum í kynningu á samningnum og síðan verður atkvæðagreiðsla um hann sem ég reikna með að ljúki eigi síðar en 23. þessa mánaðar. Við gerum það með það að markmiði að hægt verði að keyra leiðréttinguna á afturvirkninni samhliða launakeyrslu um næstu mánaðarmót. Við getum ekki farið núna inn í verksmiðjuna og kynnt samninginn eins og við höfum alltaf gert svo við þurfum að gera þetta á rafrænu formi núna til að virða sóttvarnareglur,“ segir Vilhjálmur. 

Hann bindur miklar vonir við að samningurinn verði samþykktur. 

„Ég bind miklar vonir við að samningurinn verði samþykktur. Enda eru mjög mikil verðmæti fólgin í samningnum, varðandi þessa afturvirkni, endurskoðanir á bónusakerfinu og síðan þessa kjarabreytingu sem nemur um 40-50 þúsund krónum á mánuði. Það verður að teljast á þessum tímum sem við erum að glíma núna við í íslensku efnahagskerfi og atvinnulífi mjög ásættanlegt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert