Endurskoða húsnæðisaðbúnað eftir brunann við Bræðraborgarstíg

Brunarústirnar við Bræðraborgarstíg.
Brunarústirnar við Bræðraborgarstíg. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Úrbóta er þörf ef koma á í veg fyrir að hættulegar byggingar séu leigðar út til einstaklinga í miklum húsnæðisvanda. Þetta kemur fram í ályktun mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs Reykjavíkur sem samþykkt var einróma í síðustu viku.

Ályktunin byggir á minnisblaði sem mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa borgarinnar vann í kjölfar brunans við Bræðraborgarstíg 1 í júní, en þrjár manneskjur létu lífið í eldsvoðanum. Karlmaður var ákærður fyrir manndráp og íkveikju í tengslum við brunann, en dómsmál stendur nú yfir honum.

Í minnisblaðinu kemur fram að núgildandi reglur taka ekki fyllilega á þeim raunveruleika sem samfélagið stendur frammi fyrir og fara þurfi yfir lög, reglur og verklag þeirra stofnana sem bera ábyrgð á eftirliti með byggingum. Þar að auki þurfi upplýsingar um rétt leigjenda og hvert þeir geta leitað eftir aðstoð að vera skýrar og aðgengilegar á mismunandi tungumálum, en fórnarlömb brunans í júní voru öll pólskir ríkisborgarar.

Þrír létust í eldsvoða á Bræðraborgarstíg í sumar.
Þrír létust í eldsvoða á Bræðraborgarstíg í sumar. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

„Það er með öllu óásættanlegt í okkar samfélagi að berskjölduð og jaðarsett staða einstakra hópa eins og innflytjenda og þeirra sem tala ekki íslensku leiði til mismununar þar sem þeim er gert að búa við óviðunandi húsakost sökum úrræðaleysis, þar sem öryggi þeirra er stefnt í hættu,“ segir Dóra Björt Guðjónsdóttir, formaður mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs, í fréttatilkynningu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert