Andlát: Erlendur G. Eysteinsson

Erlendur Guðlaugur Eysteinsson, fyrrverandi bóndi á Stóru-Giljá, lést á Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi 1. október sl., 88 ára að aldri.

Erlendur fæddist að Beinakeldu í Torfalækjarhreppi í Austur-Húnavatnssýslu 10. janúar 1932 og ólst þar upp. Foreldrar Erlendar voru Eysteinn Erlendsson bóndi og Guðríður Guðlaugsdóttir húsfreyja. Hann var í barnaskóla í fjóra vetur, farskóla, einn vetur í yngri deild Hólaskóla og stundaði nám við Bréfaskóla SÍS í tvö ár. Erlendur vann ungur á búi foreldra sinna til 1955 en þá varð hann vinnumaður hjá föðurbræðrum sínum, Sigurði og Jóhannesi, á Stóru-Giljá. Árið 1957 flutti hann aftur að Beinakeldu og hóf þar búskap á hálfri jörðinni ásamt konu sinni. Þau bjuggu að Beinakeldu til 1972. Þá keyptu þau Stóru-Giljá, þar sem þau bjuggu til 2008, en fluttu þá til Blönduóss.

Erlendur var stofnandi ungmennafélagsins Húna í Torfalækjarhreppi, sat í stjórn og var formaður þess, var formaður skólanefndar Húnavallaskóla 1972-82, sat í stjórn Byggðasamlags Húnavallaskóla, sat í stjórn Sauðfjárræktarfélags Sveinsstaðahrepps og var gjaldkeri þess, í stjórn Hrossaræktarsambands Austur-Húnavatnssýslu, í stjórn Veiðifélags Vatnsdalsár og var formaður Búnaðarfélags Torfalækjarhrepps. Hann var hreppsnefndarmaður í rúm 46 ár og oddviti síðustu 16 árin, sat í héraðsnefnd Austur-Húnavatnssýslu í 12 ár, var oddviti hennar og héraðsráðs síðustu fjögur árin.

Erlendur starfaði um árabil í Lionsklúbbi Blönduóss og var fjölumdæmisstjóri Lions 109 á Íslandi 1991-92. Hann var formaður fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Austur-Húnavatnssýslu um langt árabil og sat í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins. Hann sat í sóknarnefnd Þingeyrasóknar í 49 ár, þar af formaður í 27 ár. Hann var meðhjálpari í Þingeyrakirkju í 49 ár.

Eiginkona Erlendar er Helga Búadóttir og eignuðust þau fjögur börn; Árdísi Guðríði, Ástríði Helgu, Eystein Búa og Sigurð.

Útför Erlendar verður gerð frá Þingeyraklausturskirkju laugardaginn 17. október klukkan 14.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »