Bjóða upp á netspjall við Neyðarlínuna

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri á upplýsingafundinum í morgun.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri á upplýsingafundinum í morgun. Ljósmynd/Almannavarnir

Vef Neyðarlínunnar, 112.is, hefur verið breytt í allsherjar upplýsingatorg fyrir þolendur, gerendur og aðstandendur um allt sem viðkemur ofbeldi. 

Í fyrsta sinn verður hægt að hafa samband við Neyðarlínuna í gegnum netspjall. Þessu greindi Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri frá á upplýsingafundi almannavarna.

Vísbendingar eru um að aukning hafi orðið á ofbeldi á meðan fyrsta bylgja kórónuveirunnar gekk yfir hér á landi.

Tilkynningum til barnaverndarnefnda fjölgaði á fyrstu sex mánuðum þessa árs um ríflega 15% miðað við árið á undan og tilkynningum til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um heimilisofbeldi fjölgaði um 14% í samanburði við meðaltal síðustu þriggja ára, sagði Sigríður Björk.

Einnig verður hrint af stað vitundarvakningu þar sem fólk er hvatt til að hafa samband ef minnsti grunur vaknar um ofbeldi. Dómsmálaráðherra og félags- og barnamálaráðherra styrkja verkefnið.

Frá fjarundirritun samnings um vitundarvakningu.
Frá fjarundirritun samnings um vitundarvakningu. Ljósmynd/Aðsend

Uppfært kl. 13.12:

Fram kemur í tilkynningu að bætt verði við greiningartóli sem hjálpar fólki að átta sig á hvort um ofbeldi sé að ræða og það leitt beint að viðeigandi úrræðum. Unnið er að því að þýða síðuna 112.is á ensku og pólsku.

„Það er mikil þörf á vitundarvakningu um ofbeldi í samfélaginu og sameiginleg rafræn gátt getur gegnt lykilhlutverki í því að koma bæði þolendum og gerendum til hjálpar. Nýr vefur auðveldar aðilum að hafa samband vegna ofbeldis og við hvetjum aðila að hafa samband ef minnsti grunur er á ofbeldi,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, í yfirlýsingu.

„Það á ekki nokkur aðili að þurfa að þola ofbeldi, hvort sem um er að ræða líkamlegt eða andlegt. Með opnun þessarar rafrænu gáttar stígum við stórt skref í þá átt að vekja athygli á því ofbeldi sem fjölmargir verða fyrir, eitthvað sem við verðum að takast á við og reyna að uppræta með öllum mögulegum ráðum,“ segir Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, í yfirlýsingunni.

„Við höfum þróað sérstakt rafrænt netspjall þannig að þeir sem þurfa aðstoð vegna ofbeldis, slysa, sjúkdóma eða annars geta leitað upplýsinga og aðstoðar hjá 112, jafnvel þó þeir geti eða vilja ekki nota síma. Þá munum við einnig þróa áfram döff-app 112 þannig að aðstoð 112 verði sem aðgengilegust öllum, hvar sem er og hvenær sem er,“ segir Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar, í yfirlýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert