Einn fluttur á sjúkrahús eftir eldsvoða

Facebook slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins

Ungur maður var fluttur á sjúkrahús í nótt eftir eldsvoða í íbúð við Samtún í Reykjavík. Allt tiltækt slökkvilið var sent á staðinn þegar tilkynnt var um eldinn um fjögurleytið og að talið væri að fólk væri inni í húsinu.

Að sögn varðstjóra í slökkviliði höfuðborgarsvæðisins var ungi maðurinn kominn út úr húsinu þegar slökkvilið kom á vettvang og var hann með töluverða reykeitrun. Ekki reyndust fleiri vera í húsinu en eldurinn kom upp í kjallaraíbúð forskalaðs timburhúss.

Greiðlega gekk að slökkva eldinn en um tíma var óttast að hann myndi læsa sig í þak hússins og mikill reykur fylgdi eldinum. Ekki er vitað um eldsupptök en húsið er talsvert illa farið. Alls voru þrjú útköll á dælubíla slökkviliðsins síðasta sólarhringinn.

Sjúkraflutningarnir voru 114 talsins, þar af 20 forgangsflutningar og jafnmargir Covid-tengdir flutningar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert