Látinn laus vegna nýrrar matsgerðar

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness. mbl.isÓmar Óskarsson

Ástæða þess að karlamaður á sextugsaldri, sem ákærður hefur verið fyrir að bana eiginkonu sinni í Sandgerði í mars, var látinn laus úr haldi er ný matsgerð um ástæður andláts konunnar sem lögð var fyrir í lok síðasta mánaðar. Eru þar fleiri ástæður settar fram sem möguleg skýring á andláti konunnar, auk þess sem áverkar á hálsi konunnar eru sagðir geta verið eldri en áður var talið. 

mbl.is greindi frá því fyrr í morgun að maðurinn hefði verið látinn laus. Þá hafði úrskurður Landsréttar hins vegar ekki verið birtur, en hann liggur nú fyrir. Þar kemur fram að samkvæmt matsgerð dómkvaddra matsmanna frá 30. september sé mögulegt að konan „hafi látist af völdum blöndunareitrunar af klórdíasepoxíði, lífefna þess og áfengis.“ Jafnframt að ekki sé hægt að staðfesta að beitt hafi verið kraftbeitingu gegn hálsi rétt fyrir andlát hennar, en samkvæmt ákæru er maðurinn sakaður um að hafa þrengt að hálsi konunnar með þeim afleiðingum að hún lést af völdum köfnunar.

Segir í matsgerðinni að sú kraftbeiting gegn hálsi konunnar sem hafi sést hafi getað átt sér stað allt að þremur dögum fyrir andlát hennar.

Telur dómurinn að þegar horft sé til þessara nýju gagna sem liggi fyrir um mögulegar dánarorsök þá verði ekki talið að skilyrði til gæsluvarðhalds sé lengur fyrir hendi. Þá er einnig hafnað varakröfu saksóknara um farbann, þar sem hún sé ekki rökstudd nægjanlega. Er því gæsluvarðhald mannsins fellt úr gildi, en hann hefur setið í varðhaldi frá því 2. apríl.

mbl.is