Leggur ekki til hertar aðgerðir

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur fulla trú á að núgildandi sóttvarnaaðgerðir muni skila árangri og segir ekki ástæðu til að herða þær að svo stöddu. Þetta sagði hann í umræðuþætti um Covid-19 í Ríkissjónvarpinu nú í kvöld.

„Við erum búin að vera með tiltölulega harðar aðgerðir sérstaklega hérna á höfuðborgarsvæðinu undanfarið. Ég hef fulla trú á að þær aðgerðir muni virka til að ná þessari kúrfu niður en ég held að það muni taka smá tíma,“ sagði Þórólfur.

„Ég hef talað um eina til tvær vikur þangað til við förum að sjá árangur og síðan mun það örugglega ganga hægt. Mér finnst ekki ástæða til að beita harðari aðgerðum og ég mun ekki leggja það til,“ segir hann. Hertar aðgerðir á höfuðborgarsvæðinu tóku gildi 7. október, eða fyrir átta dögum síðan. 

Eins og greint var frá fyrr í dag hefur Þórólfur skilað minnisblaði með tillögum um framhald sóttvarnaaðgerða til heilbrigðisráðherra, en núgildandi reglugerð fellur úr gildi á mánudag. „Ég held að við þurfum að halda áfram með þær aðgerðir sem við höfum verið með, en við þurfum að skerpa nokkrar reglur,“ sagði Þórólfur.

mbl.is

Bloggað um fréttina