Segir Póstinn komast upp með ólöglega undirverðlagningu

Pósturinn hefur lækkað gjaldskrá sína fyrir pakka- og vörusendingar utan …
Pósturinn hefur lækkað gjaldskrá sína fyrir pakka- og vörusendingar utan höfuðborgarsvæðisins um tugi prósenta. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, gagnrýnir stjórnendur Íslandspóst harðlega og segir þá brjóta lög með því að undirbjóða þjónustu sína í skjóli skattpeninga og mismuna þannig samkeppnisaðilum í einkaeigu. Þetta kemur fram í aðsendri grein Ólafs sem birt var í Morgunblaðinu í dag.

„Póstlöggjöfin gerir vissulega ráð fyrir að póstrekandi, sem sinnir alþjónustu, fái greiðslur úr ríkissjóði – en það er þá til að sinna þjónustu sem enginn annar vill sinna á viðskiptagrundvelli, til dæmis að dreifa pósti á dreifbýlum svæðum sem ekki geta talizt virk markaðssvæði. Íslandspóstur virðist hins vegar vilja fá greiðslur úr vösum skattgreiðenda fyrir samkeppni á virkum markaðssvæðum,“ segir Ólafur í grein sinni. Hann bendir á að í upphafi árs hafi Pósturinn breytt gjaldskrá sinni fyrir pakka- og vörusendingar innanlands. Gjaldskráin fyrir dreifingu innan höfuðborgarsvæðisins hafi hækkað um 3%, en lækkað um allt að 38% á öðrum dreifingarsvæðum. „Þar með fór verð Íslandspósts enn lengra en áður undir verð keppinautanna...“

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.

Gjaldskrárbreytingin sé gerð með vísan til nýrra póstlaga, „en í póstlögunum er líka ákvæði, sem á að koma í veg fyrir tap á þjónustunni; að gjaldskrá fyrir alþjónustu skuli taka mið af raunkostnaði að viðbættum hæfilegum hagnaði. Með því að láta verð höfuðborgarsvæðisins gilda um allt land var hins vegar augljóslega verið að dúndra verðinu rækilega undir raunkostnað – og svo er farið fram á að skattgreiðendur greiði mismuninn,“ segir Ólafur. 

Í febrúar krafðist Póst- og fjarskiptastofnun þess að Íslandspóstur sýndi fram á það að gjaldskráin stæðist lög, og lagði í kjölfarið fyrir Póstinn að endurskoða gjaldskrána fyrir 5. maí. Ekkert fréttist þó af endurskoðun gjaldskrárinnar fyrir þann dag og var fyrirspurnum FA til Póst- og fjarskiptastofnunar um endurskoðun gjaldskrárinnar og hvort hún sé talin standast lög ekki svarað, samkvæmt Ólafi.

„Í níu og hálfan mánuð hefur ríkisfyrirtækið komizt upp með það sem að mati FA er klárlega ólögleg undirverðlagning og náð til sín stækkandi hluta af vaxandi markaði fyrir pakkasendingar.“

Grein Ólafs sem birt var í Morgunblaðinu má nálgast hér.

mbl.is