Vill vetrarfrí í skólum og lokun veitingastaða

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, leggur til að skólum og …
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, leggur til að skólum og veitingastöðum verði lokað um tíma. mbl.is/Hari

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, vill að sóttvarnaaðgerðir verði hertar um allt land til að hemja útbreiðslu kórónuveirunnar.

Fram kom í umræðuþætti á RÚV fyrir skemmstu að Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefði lagt til við heilbrigðisráðherra að núgildandi reglur yrðu að mestu framlengdar, en Þórólfur sæi ekki ástæðu til hertra aðgerða. Þegar mbl.is náði tali af Kára fyrr í kvöld hafði sá þáttur þó ekki farið í loftið.

Ekkert bendi til að veiran sé að gefa eftir

„Mér stendur ógn af því hversu illa gengur að hemja veiruna,“ segir Kári. „Þó að börn smitist síður en fullorðnir, og smiti aðra síður, þá smita þau aðra engu að síður.“ Telur hann að ekki væri vitlaust að taka vetrarfrí í grunn- og leikskólum næstu daga.

Lokanir í leikskólum og yngstu bekkjum grunnskóla kæmu sér vitanlega illa fyrir vinnandi foreldra. Telur Kári slíkar aðgerðir raunhæfar? 

„Það er ekkert í þessu raunhæft í sjálfu sér,“ segir Kári. „Til þess að hægt sé að stunda atvinnulíf á eðlilegan hátt verðum við að losna við [veiruna] eða minnka töluvert.“ Bendir hann á að síðustu 2-3 vikur hafi milli 60 og 100 smit greinst á degi hverjum og segir að veiran virðist ekkert ætla að gefa eftir.

Því vildi Kári einnig að veitingastöðum væri lokað. Þeir mega nú vera opnir, en aðeins til klukkan 21 á höfuðborgarsvæðinu og klukkan 23 annars staðar. „Ég myndi ganga dálítið langt í að minnka samskipti,“ segir hann.

Kári játar þó að það þurfi að vega og meta ýmsa hagsmuni þegar ákvarðanir eru teknar. „Mér finnst Þórólfi hafa farnast það mjög vel. Hann er íhaldssamari en ég. Ég hefði viljað fara lengra og bregðast við þessu fyrr en hann gerði, en hann hefur verið gifturíkur í þessu öllu saman,“ segir Kári.

mbl.is

Bloggað um fréttina