Ganga kaupum og sölum í undirheimum

Lögreglustöðin á Hverfisgötu.
Lögreglustöðin á Hverfisgötu. mbl.is/Golli

Lögreglustöðinni á Hverfisgötu í Reykjavík berast á hverjum degi tilkynningar um að stolið hafi verið verkfærum úr nýbyggingum eða úr geymslum í fjölbýlishúsum.

Rafn Hilmar Guðmundsson aðalvarðstjóri segir að mest sé brotist inn í nýbyggingar og stolið þaðan verkfærum, flestum með rafhlöðum. Nefnir hann borvélar og litlar loftpressur sem dæmi um verkfærin. Aðspurður segist hann ekki vera viss um að aukning hafi verið á þessum þjófnuðum en að þeir séu daglegir.

Verkfærin ganga svo kaupum og sölum á undirheimamarkaði.

Endurheimta mikið magn

Rafn Hilmar tekur fram að lögreglan endurheimti mjög mikið af verkfærunum og eru geymslur hennar fullar af þeim. Ferlið er þannig að eftir að lögreglan fær tilkynningu um þjófnaðinn hefst rannsókn á málinu. Oftast kemst hún yfir upptökur úr öryggismyndavélum en einnig koma inn vísbendingar um gerendur. „Þetta er hörkuduglegt fólk sem er að vinna hjá okkur,“ segir hann um samstarfsfólk sitt.

Varðstjórinn hvetur verktaka og aðra um að ganga vel frá verkfærum sínum þannig að þjófar eigi erfitt með að nálgast þau.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert