Láta Covid ekki stöðva neysluna

mbl.is/​Hari

Kortavelta Íslendinga var talsverð í september og jókst um 7% milli ára að raunvirði. Fjölgun veirusmita virðist ekki hafa haft mikil áhrif á neysluvenjur fólks í mánuðinum. Þetta kemur fram í Hagsjá hagdeildar Landsbankans.

Seðlabanki Íslands birti fyrr í vikunni gögn um veltu innlendra greiðslukorta í september. Alls nam velta tengd verslun og þjónustu innanlands 69 milljörðum króna og jókst um 7% milli ára miðað við fast verðlag. Þetta er nokkru meiri aukning en mældist í ágúst þegar veltan jókst um 2%, sem var minni aukning en mældist á fyrri mánuðum sumars.

Stöðug aukning frá maí

„Önnur bylgja Covid-19-faraldursins virðist því hafa haft einhver áhrif á neysluvenjur ágústmánaðar, en þau áhrif svo fjarað út þegar leið á september, þrátt fyrir talsverða fjölgun smita þegar leið á mánuðinn.

Síðan í maí, þegar fyrsta bylgja faraldursins var að líða undir lok, hefur mælst stöðug aukning á kortaveltu Íslendinga innanlands samanborið við sama mánuð í fyrra, enda lítið um utanlandsferðir og margir að bæta upp neyslu erlendis með aukinni neyslu innanlands,“ segir í Hagsjánni.

Eyddu níu milljörðum erlendis

Greiðslukortavelta Íslendinga erlendis nam tæpum níu milljörðum króna í september, sem er samdráttur upp á 53% milli ára. Samanlagt dróst kortavelta Íslendinga saman um tæp 7% milli ára í september miðað við fast verðlag og gengi.

Sé litið til uppsafnaðrar kortaveltu frá áramótum sést að Íslendingar hafa nú eytt 55 milljörðum minna (7,3%) í ár en í fyrra miðað við fast verðlag og gengi.

Það er því ljóst að Covid-19-faraldurinn og þær efnahagsþrengingar sem honum fylgja hafa haft mikil áhrif á neyslu fólks að því er fram kemur í riti Landsbankans.

Sé litið til samsetningar neyslunnar má sjá að kortavelta innanlands hefur aukist um 3% milli ára og kortavelta erlendis dregist saman um 44% að raunvirði.

mbl.is