Reykjalundur tekur við tíu frá Landspítala

Reykjalundur tekur við tíu sjúklingum frá Landspítalanum.
Reykjalundur tekur við tíu sjúklingum frá Landspítalanum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Reykjalundur byrjar í dag að taka við hjúkrunarsjúklingum af Landspítalanum eftir að samningur þess efnis var gerður við Sjúkratryggingar Íslands. Tíu aldraðir einstaklingar munu dvelja á Reykjalundi fram í miðjan desember og með því losna tíu rúm hjá Landspítalanum.

Að sögn Stefáns Yngvasonar, framkvæmdastjóra lækninga á Reykjalundi, léttir þetta álagi af Landspítalanum sem hefur haft í nógu að snúast vegna Covid-19. Fólkið sem flyst yfir á Reykjalund hefur verið metið hæft til að vera á hjúkrunarheimili og búið er að sækja um pláss fyrir það þar.

Stefán Yngvason, framkvæmdastjóri lækninga á Reykjalundi.
Stefán Yngvason, framkvæmdastjóri lækninga á Reykjalundi. mbl.is/Árni Sæberg

Rúmlega 40 beiðnir vegna veirunnar

Þrettán sjúklingar eru í endurhæfingu á Reykjalundi eftir að hafa sýkst af kórónuveirunni. Alls hafa rúmlega fjörutíu beiðnir borist stofnuninni og verið er að vinna í þeim biðlista, segir Stefán.

Spurður út í þær 200 milljónir sem stjórnvöld ákváðu að verja til aukinnar endurhæfingar, meðal annars fyrir fólk sem hefur glímt við eftirköst Covid-19, segir Stefán að málið sé óafgreitt af hálfu Sjúkratrygginga. Hann segir að þótt Reykjalundur hafi verið nefndur í tengslum við upphæðina „vitum við ekki til þess að þessir fjármunir séu eyrnamerktir Reykjalundi fremur en öðrum“, segir hann og kveðst ekki vita hvenær málið verður afgreitt.

Styttri meðferð vegna veirunnar

Fimm manns á Reykjalundi greindust með kórónuveiruna í síðasta mánuði og fjöldi fór í sóttkví. Stefán segir að ekkert sé um smit þar núna. Einn og einn starfsmaður hefur farið í sóttkví vegna smits í nágrenni við hann utan Reykjalundar, rétt eins og gengur og gerist á mörgum öðrum vinnustöðum.  

Hann nefnir að sóttvarnaráðstafanir hafi sett stofnuninni þröngar skorður bæði í vor og núna. Meðferðin hjá mörgum hafi verið stytt í rúmlega hálfan dag til að draga úr líkum á því að smit berist á Reykjalund. Starfsmenn og sjúklingar hafa einnig verið hólfaðir niður til að minnka smithættu, segir hann. „Við viljum fá sem allra minnst af heimsóknum og helst engar, nema þær sem eru allra nauðsynlegastar.“

Reglur um að ekki megi fleiri en tuttugu koma saman hafa einnig haft mikil áhrif á starfsemina, meðal annars varðandi hópmeðferð og hópþjálfun, auk þess sem tveggja metra reglan afmarkar hversu margir geta verið saman í herbergi.

mbl.is