Tekjuhrun margra listamanna algjört

Þriðjungur tónlistarmanna segir tekjur sínar hafa hrunið að öllu leyti …
Þriðjungur tónlistarmanna segir tekjur sínar hafa hrunið að öllu leyti vegna kórónuveirufaraldursins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Um 80% listamanna segjast hafa orðið fyrir tekjufalli vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Helmingur segir að tekjur sínar hafi skerst um meira en 50% og fimmtungur listamanna segir að tekjufall sitt nemi um 75-100%. Þetta eru niðurstöður tveggja kannana sem BHM gerði meðal listamanna á Íslandi.

Tekjur meirihluta svarenda eru undir framfærsluviðmiði og helmingur svarenda segist eiga í erfiðleikum með að standast fjárhagslegar skuldbindingar. Fjölmörg ríki hafa ákveðið að styðja við bakið á listamönnum með sértækum úrræðum vegna kórónuveirufaraldursins en Ísland er ekki þar á meðal.

Kannanirnar voru gerðar í september og október og náðu til um 1.700 listamanna innan aðildarfélaga Bandalags íslenskra listamanna auk fjölmargra hagsmunasamtaka innan tónlistargeirans. Meðal listamannanna sem tóku þátt eru sviðslistamenn, tónlistarmenn, fólk í kvikmyndageiranum, myndlistarmenn og fólk sem fæst við ritlist. Auk þess var horft til stoðgreina á borð við tækniþjónustu sem tengist viðburðahaldi.

Tekjuhrun algjört hjá þriðjungi tónlistarmanna

Um 82% svarenda í könnunum BHM sögðu að sóttvarnaráðstafanir vegna kórónuveirufaraldursins væri ástæða tekjuhruns þeirra. Færri bókanir vegna viðburða gerði það að verkum að 75-80% tónlistarmanna sagði að tekjusamdráttur sinn hafi verið meiri en 50% og þriðjungur tónlistarmanna sagði tekjur sínar hafa hrunið að öllu leyti.

Tveir af hverjum þremur segjast, samkvæmt könnunum BHM, þurfa að leita á náðir stjórnvalda. Hins vegar segir í fréttatilkynningu BHM að bótaúrræði stjórnvalda nýtist sjálfstætt starfandi listamönnum illa. Þannig segjast 60% svarenda sem eru sjálfstætt starfandi að einhverju leyti ekki fá nema hluta af bótum greiddan eða hafi verið alfarið synjað um bótaúrræði.

mbl.is