Vísbendingar um að faraldurinn sé á niðurleið

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að mögulega sé smitfjöldi dagsins vísbending um að faraldurinn hér á landi sé á niðurleið. Hlutfall þeirra sem greinast í sóttkví fer hækkandi og gefur það ástæðu til bjartsýni. Hins vegar segir hann að enn geti brugðið til beggja vona og að engin ástæða sé til þess að fólk hætti að passa sínar einstaklingsbundnu sóttvarnir.

Jafnframt segir Þórólfur að hann geri ráð fyrir því að fréttir af andlátum vegna veirunnar veki fólk til umhugsunar um afleiðingar hennar.

„Það eru vísbendingar um að þetta sé að fara að sigla niður. Þetta er aðeins á niðurleið og hlutfall þeirra sem greinist í sóttkví fer aðeins hækkandi,“ segir Þórólfur í samtali við mbl.is.

„Hins vegar getur enn brugðið til beggja vona og það er engin ástæða til þess að fólk hætti að passa sig. Við beinum ennþá þeim tilmælum til almennings að fólk passi sínar einstaklingsbundnu sýkingavarnir.“

Fréttir af andláti veki fólk til umhugsunar

Þórólfur segir að hann geri ráð fyrir að fréttir af andlátum vegna kórónuveirunnar veki fólk til umhugsunar um alvarleika faraldurins. Jafnmargir hlutfallslega leggjast inn á sjúkrahús og í fyrstu bylgju þó svo að færri fari á gjörgæslu.

„Þetta er ekki bara einhver saklaus kvefpest. Ég geri ráð fyrir því að fréttir af andlátum veki fólk til umhugsunar.“

Þórólfur segist ekki vita um ákvarðanir stjórnvalda vegna minnisblaðs sem hann afhenti heilbrigðisráðherra í gær. Honum þykir líklegt að aðgerðir breytist lítið.

„Það er auðvitað alveg eðlilegt ef stjórnvöld vilja haga útfræsluatriðum á sóttvarnaraðgerðum einhvern veginn öðruvísi en ég geri tillögu um í minnisblaði mínu. Það er stjórnvalda að ákveða það. Hins vegar tel ég ólíklegt að aðgerðir næstu daga muni taka stórfelldum breytingum.“

mbl.is