Braut sóttvarnalög oftar en einu sinni

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í dag afskipti af manni í Hafnarfirði vegna gruns um brot á sóttvarnalögum. Maðurinn kom nýlega til landsins og hefur brotið sóttkví að minnsta kosti tvisvar. Maðurinn hefur ekki fengið niðurstöðu úr seinni skimun. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. 

Þá var tilkynnt vopnað rán í matvöruverslun í miðbænum skömmu fyrir hádegi í dag, en maðurinn ógnaði starfsmanni verslunarinnar og stal reiðufé. Þjófurinn var handtekinn af sérsveit lögreglunnar á Austurvelli um klukkustund síðar og er nú vistaður í fangageymslu. 

Tilkynnt var um þrjú þjófnaðarbrot í dag. Þá voru tveir ökumenn stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna. 

Þá hafði lögregla, um klukkan 15 í dag, afskipti af manni í miðbænum. Eftir samskipti mannsins við lögreglu ók hann rafskútu á lögreglubifreiðina áður en hann ók á brott. Maðurinn var handtekinn skömmu síðar og er vistaður í fangageymslu grunaður um brot gegn nálgunarbanni og eignaspjöll. 

mbl.is