Flest smit innan fjölskyldna

Már Kristjánsson er yfirlæknir smitsjúkdómalækninga.
Már Kristjánsson er yfirlæknir smitsjúkdómalækninga. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítalans, segir að margt bendi til þess að við séum að ná tökum á kórónuveirufaraldrinum. 69 greindust innanlands í gær og af þeim voru 78% í sóttkví. 

„Þetta er meira smit sem er innan fjölskyldna og það eru margir í sóttkví. Þannig að það bendir til þess að þessar aðgerðir séu að skila tilætluðum árangri,“ segir Már í viðtali við mbl.is. 

Alls liggja 26 inni á sjúkrahúsi og af þeim eru fjórir á gjörgæslu. Þar af eru tveir á öndunarvél. Már segir að allar tölur bendi til þess að ágætlega gangi í baráttunni við veiruna og er bjartsýnn á framhaldið. 

Hertar aðgerðir á höfuðborgarsvæðinu tóku gildi 7. október, eða fyrir 10 dögum. Þær renna út á mánudaginn en Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur skilað inn nýjum tillögum til heilbrigðisráðherra og liggja þær nú inni á borði ráðuneytisins. Þórólfur sagði í vikunni að hann hefði fulla trú á núgildandi sóttvarnaaðgerðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina