Landlæknir braut á sjúkraliða

Alma Möller landlæknir.
Alma Möller landlæknir.

Sjúkraliðinn Agnes Veronika Hauksdóttir, sem var bakvörður í á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík í vor, hefur fengið mál sitt tekið upp að nýju. Embætti landlæknis synjaði henni um starfsleyfi á þeim grundvelli að hún hefði ekki viðhaldið kunnáttu sinni frá útskrift með því að vinna sem sjúkraliði frá því náminu lauk.

Heilbrigðisráðuneytið hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að sú ákvörðun hafi ekki verið tekin á réttum lagagrundvelli. Úrskurðurinn var birtur á vef Stjórnarráðsins í gær en hann lá fyrir þann 9. október. 

Agnes á ættir að rekja til Bolungarvíkur en hún útskrifaðist sem sjúkraliði árið 2007 en árið hóf hún störf sem leikskólakennari og er í dag deildarstjóri á leikskóla. Amma Agnesar, Helga Guðmundsdóttir, komst í fréttir í vor er hún sigraði veiruna, þá 103 ára gömul. 

Agnes Veronika ásamt ömmu sinni, Helgu Guðmundsdóttur.
Agnes Veronika ásamt ömmu sinni, Helgu Guðmundsdóttur. Ljósmynd/Agnes Veronika

Þegar Agnes tók til starfa á Bergi þurfti hún ekki að framvísa öðru en prófskírteini en eftir að mál annars bakvarðar sem grunaður er um að hafa villt á sér heimildir kom upp var hún beðin um að afla formlegs leyfisbréfs frá heilbrigðisyfirvöldum. 

Hún fékk synjun þann 7. maí. Í rökstuðningi landlæknis kom fram að hún hefði aðeins starfað sem sjúkraliði í þrjú og hálft ár eftir útskrift og ekki viðhaldið kunnáttu sinni. 

Lögmaður Agnesar óskaði eftir endurskoðun á þessari ákvörðun en embættið staðfesti niðurstöðu sína í maí. Niðurstaðan var kærð til heilbrigðisráðuneytisins þar sem Agnes benti meðal annars á að synjun landlæknis þýddi að hún væri svipt starfsleyfi. Það gæti ekki staðist að sjúkraliði sem tæki ákvörðun um að starfa á öðrum vettvangi glataði starfsréttingum sínum til frambúðar. Með því væri landlæknisembættið að segja að menntun hennar væri fyrnd og ef hún vildi starfa sem sjúkraliði þyrfti hún að hefja nám aftur. 

Þessu hafnaði landlæknisembættið og sagði að það teldi sig ekki hafa heimild til að veita henni starfsleyfi sem sjúkraliða á grundvelli 13 ára gamallar menntunar. 

Í úrskurði heilbrigðisráðuneytisins kemur hinsvegar að engar breytingar hafi orðið á námskröfum og að nám Agnesar sé frá viðurkenndri námsstofnun. Þó kveðið sé á um að sjúkraliðum beri að viðhalda þekkingu sinni og faglegri færni þá sé þetta ekki sjálfsætt skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis. Enn fremur hafi ekki verið farin sú leið að setja þessa kröfu sem skilyrði fyrir starfsleyfi í tilvikum sjúkraliða. Því beri embættinu að taka málið aftur upp. 

Í viðtali við Rúv segir Agnes að þrautagöngu sinni sé ekki lokið þó úrskurður heilbrigðisráðuneytis hafi borist. Hún hafi strax sent inn umsókn um starfsleyfi en ekki fengið nein svör. Hún segist hafa hringt og óskað eftir því að embættið hafi í það minnsta fengið umsóknina. Barst henni staðfesting daginn eftir. 

Í viðtali við mbl.is í maí sagði Agnes að það hafi verið mikil niðurlæging að vera synjað um leyfisbréfið. 

mbl.is

Bloggað um fréttina