Myndu aldrei hvetja til eignaspjalla

Stjórnarskrárfélagið telur eðlilegt að fólk tjái sig eins og það …
Stjórnarskrárfélagið telur eðlilegt að fólk tjái sig eins og það vill í þessari baráttu, svo lengi sem það er ekki að meiða neinn eða skemma eigur annarra, að sögn Katrínar Oddsdóttur, formanns félagsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við myndum aldrei hvetja fólk til að stunda eignaspjöll eða slíkt,“ segir Katrín Oddsdóttir, formaður Stjórnarskrárfélagsins, í tilefni gagnrýni sem félagið hefur sætt vegna baráttuaðferða sinna í þágu nýrrar stjórnarskrár sem byggð yrði á tillögum stjórnlagaráðs frá árinu 2012.

Í færslu sem félagið birti á Facebook á mánudag var auglýst eftir frjálsum framlögum til félagsins. „Við munum nota peningana til að fjármagna efni fyrir listamenn sem vilja tjá skoðanir sínar um stjórnarskrármálið, hvort sem þær verða afmáðar af valdhöfum jafnóðum eða ekki,“ sagði í færslunni. 

Félagið hefur að sögn Katrínar ekki gert athugasemdir við gjörninga sem almenningur hefur gripið til í nafni baráttunnar.

„Ef fólk vinnur skemmdarverk á einkaeigum þá finnst okkur það mjög leitt. Það er ekki gott fyrir þessa baráttu,“ segir Katrín. Félaginu hafa ekki borist beiðnir um að bæta tjón sem kann að hafa hlotist á einkaeigum vegna baráttunnar.

FRÉTTIR & FJÁRÖFLUN! Nú er 29.500 undirskrifta múrinn líka fallinn!!! ÞETTA ÞÝÐA YFIR 1100 UNDIRSKRIFTIR FRÁ ÞVÍ Í...

Posted by Stjórnarskrárfélagið -The Icelandic Constitution Society on Monday, 12 October 2020

Standa ekki fyrir áletrunum á vegg sjávarútvegsráðuneytisins

Katrín segir að áletranir í nágrenni sjávarútvegsráðuneytisins séu sérstaks eðlis og þar hafi ekki verið um skemmdarverk að ræða.

„Skattfé hefur ekki áður verið varið í það að þrífa þessa veggi og það er ekki Stjórnarskrárfélagið sem stendur fyrir þessu heldur listamaður að nafni Narfi, sem ákveður að gera þetta listaverk. Ég held að Stjórnarskrárfélagið telji að það sé eðlilegt að fólk tjái sig með þessum hætti.

Þarna fóru ekki fram eignaspjöll – portið er allt úti í myndum. Ég held að það sé langt seilst og dramatísk túlkun að líta svo á að það sé verið með þessu að ráðast á eignir ríkisins. Mér finnst það ekki rétt,“ segir Katrín.

Nú hafa ýmsir lýst því yfir að þeir hafi framið borgaralega óhlýðni í þágu málstaðarins, til að mynda með veggjakroti. Leggur félagið blessun sína yfir slíkar aðferðir?

„Stjórnarskrárfélagið telur eðlilegt að fólk tjái sig eins og það vill í þessari baráttu, svo lengi sem það er ekki að meiða neinn eða skemma eigur annarra. Borgaraleg óhlýðni er dálítið sem fólk hefur notað langt aftur í aldir og þessi aðferð hefur borið árangur í gegnum tíðina. En tilgangurinn með borgaralegri óhlýðni er einmitt að taka ábyrgð á því sem er gert og leyfa málinu síðan að hafa sinn gang innan dómskerfisins,“ segir Katrín.

Katrín Oddsdóttir, formaður Stjórnarskrárfélagsins, hefur barist fyrir því að „nýja …
Katrín Oddsdóttir, formaður Stjórnarskrárfélagsins, hefur barist fyrir því að „nýja stjórnarskráin“ verði lögfest. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jákvætt að fleiri stígi inn í umræðuna

Bætir Katrín við að svo lengi sem fólk heldur sig innan lagarammans og spyrji réttmætra spurninga, á borð við „hvar er nýja stjórnarskráin“, geri félagið ekki athugasemdir við slíkt. Tjáning eigi sér ýmsar birtingarmyndir og Mannréttindadómstóll Evrópu hafi litið svo á að borgaraleg óhlýðni rúmist innan tjáningarfrelsisins.

Að lokum segir Katrín:

„Það góða sem kemur út úr þessu er að stærri hópur er að tala um þetta mál, bæði þeir sem eru sammála því að lögfesta nýju stjórnarskrána og þeir sem eru ekki sammála.“

mbl.is

Bloggað um fréttina