Sjáðu tómar laugar borgarinnar

Úr myndbandi Steinars. Það er tómlegt um að litast í …
Úr myndbandi Steinars. Það er tómlegt um að litast í laugum borgarinnar. Ljósmynd/Aðsend

Steinar Þór Ólafsson samskiptastjóri birti í gær skemmtilegt myndband þar sem hann heimsækir helstu sundlaugar höfuðborgarsvæðisins, sem eru eins og flestir vita heldur tómlegar þessi dægrin. 

Sundlaugum á höfuðborgarsvæðinu var lokað 5. október síðastliðinn vegna útbreiðslu þriðju bylgju kórónuveirufaraldursins. 

Steinar segir í samtali við mbl.is að lokunin hafi verið kjörið tækifæri til að mynda laugarnar, en í myndbandinu útskýrir hann meðal annars sundmenningu Íslendinga. 

„Mig hefur langað gera þetta rosa lengi. En eins og í Laugardalslauginni þá er þetta held ég einn dagur á ári, ef það, sem laugin er lokuð og maður vill kannski ekki vera með drónann í sundlaug þegar fullt af fólki er þar. Mér fannst þetta kjörið tækifæri til að nýta þetta augnablik og kíkja á þær,“ segir Steinar. 

Myndbandið má sjá hér að neðan, en Steinar segir það hafa verið lítið mál að fá að mynda laugarnar. 

„Það var ekkert vesen, bara minnsta mál í heimi. Í mörgum eru ekki einu sinni starfsmenn á svæðinu svo þetta var ekkert mál.“

mbl.is