Endurskilgreina hugtakið „ofurkona“

Ungar athafnakonur standa fyrir herferðinni.
Ungar athafnakonur standa fyrir herferðinni. Ljósmynd/Aðsend

Hundruð hafa tekið þátt í samfélagsmiðlaherferð Ungra athafnakvenna og deilt ofurkonunum í lífi sínu á samfélagsmiðlum, undir myllumerkinu #ofurkona. Tilgangur herferðarinnar er að endurskilgreina hugtakið ofurkona á jákvæðan hátt með því að minna á að ofurkonan þarf ekki að uppfylla kröfur samfélagsins.

„Við viljum sýna fram á að konur geta verið ofurkonur fyrir að taka pláss, vera góðar vinkonur, einlægar, hugrakkar eða að segja sína skoðun. Allar konur hafa eiginleika sem gera þær að ofurkonum,“ segir Vala Rún Magnúsdóttir, formaður UAK. 

Vefráðstefnan Ofurkonan þú, í samstarfi við Hugrúnu geðfræðslufélag, verður haldin á þriðjudaginn næstkomandi og er liður í herferðinni:

„Þar munum við meðal annars fjalla um gamla hugtakið „ofurkona“, sem leiðir til kulnunar og streitu. Við ætlum að taka pressuna af konum og gera þeim kleift að þekkja einkennin á kulnun og láta þeim líða eins og þær þurfi ekki að gera allt heldur sinna því sem þær eru að gera hverju sinni,“ segir Vala.

Fjölmargir hafa sýnt viðburðinum áhuga, sem hefst á þriðjudag klukkan 17.30 og stendur yfir til 19.00.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert