Gagnrýna ákvörðun ráðuneytisins um að breyta ekki reglum

Rjúpnaskytta á rjúpu.
Rjúpnaskytta á rjúpu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Umhverfis-og auðlindaráðuneytið hefur gefið út að engar breytingar verði gerðar á veiðitíma rjúpu þetta árið, þrátt fyrir að full ástæða hafi verið til að endurskoða árs gamla ákvörðun að mati Skotveiðifélags Íslands.

Fram kemur í tilkynningu frá Skotveiðifélaginu að gögn Umhverfisstofnunar sýni að fjöldi sóknardaga veiðimanna hafi haldist nokkuð jafn óháð fjölda leyfilegra veiðidaga. Í þessu samhengi sé það mat Umhverfisstofnunar að fleiri veiðidagar hafi jafnframt jákvæð áhrif á öryggi veiðimanna sem og áhrif veiða á streitu hjá rjúpu þar sem færri veiðimenn eru á veiðislóð á hverjum veiðidegi. 

„Fækkun leyfilegra veiðidaga úr 69 í 22 er því ekki lengur veiðistjórnunaraðgerð. Aðgerðin hefur neikvæð áhrif á öryggi veiðimanna og eykur álag á rjúpnastofninn. Stjórnvaldi ber að byggja ráðgjöf sína á bestu fáanlegu gögnum, að leggja til fækkun veiðidaga gengur gegn þeirri skyldu. Ráðgjöfin er beinlínis í mótsögn við greinargerðina,“ segir í tilkynningu frá Skotveiðifélaginu. 

Þá mælist félagið einnig til þess að friðun á suðvesturhluta landsins verði aflétt.  

Félagið gagnrýnir sömuleiðis umhverfisráðuneytið fyrir skort á samráði við félagið við gerð reglna um rjúpnaveiði fyrir árið 2020. 

mbl.is

Bloggað um fréttina